Erlent

Nýir flokkar hrista hressi­lega upp í danska stjórn­mála­lands­laginu

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins, vill áfram gegna embætti forsætisráðherra. Hún boðaði til kosninga í byrjun mánaðar.
Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins, vill áfram gegna embætti forsætisráðherra. Hún boðaði til kosninga í byrjun mánaðar. EPA

Það stefnir í spennandi þingkosningar í Danmörku eftir rúma viku og benda kannanir til að tveir nýir flokkar muni hrista hressilega upp í hinu pólitíska landslagi.

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra, og nýstofnaður flokkur hans, Moderaterne, hefur verið á blússandi siglingu í könnunum og mælist nú þriðji stærsti flokkurinn. Sömu sögu er að segja að flokki innflytjendaráðherrans fyrrverandi Inger Støjberg, Danmerkurdemókrata, sem mælist líkt og Moderaterne með tæplega tíu prósenta fylgi í könnunum.

Þingkosningarnar fara fram á þriðjudaginn í næstu viku, 1. nóvember, og hafa danskir fréttaskýrendur verið að líkja kosningarnar nú við „Aurskriðukosningarnar 1973“ þar sem 44 prósent kjósenda kusu annan flokk en þeir kusu í kosningunum þar á undan og byltu þar með samsetningunni á þinginu. 

Í síðustu viku benti skoðanakönnun Electica þannig til að 65 prósent kjósenda hefðu ekki gert upp hug sinn. Það er óvenjulega hátt hlutfall, svo stuttu fyrir kosningar.

Jakob Ellemann-Jensen er formaður hægriflokksins Venstre og tók við stöðunni af Lars Løkke Rasmussen.EPA

Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði til þingkosninga þann 5. október, daginn eftir að þing kom saman eftir sumarfrí. 

Einn stuðningsflokka ríkisstjórnar Frederiksen, Radikale Venstre, hafði þá sett forsætisráðherranum þá afarkosti að boða strax til þingkosninga eða þá að vantrauststillaga yrði lögð fram vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að lóga öllum minkum í landinu til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Rannsóknarnefnd þingsins hafði komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin hafi ekki staðist lög.

Ný skoðanakönnun Epinion (innan sviga er fylgið í kosningum 2019):

 • Jafnaðarmannaflokkurinn 24,3% (25,9%)
 • Venstre 12,7% (23,4%)
 • Moderaterne 9,8% (nýtt framboð)
 • Danmerkurdemókratar 8,6% (nýtt framboð)
 • Sósíalíski þjóðarflokkurinn 8,0% (7,7%)
 • Einingarlistinn 7,1% (6,9%)
 • Íhaldsflokkurinn 7,0% (6,6%)
 • Frjálslynda bandalagið 7,0% (2,3%)
 • Nýir borgaralegir 4,9% (2,4%)
 • Radikale Venstre 4,3% (8,6%)
 • Danski þjóðarflokkurinn 2,4% (8,7%)
 • Valkosturinn 2,2% (3,0%)

Endurkoma Løkke

Auknar vinsældir Løkke og flokks hans í skoðanakönnunum að undanförnu hafa vakið sérstaka athygli og vilja margir meina að hann eigi raunverulegan möguleika á að setjast aftur í stól forsætisráðherra. 

Hann var forsætisráðherra Danmerkur á árunum 2015 til 2019, þegar hann var leiðtogi hægriflokksins Venstre.

Margir hafa líkt sögu Lars Løkke Rasmussen við sögu Birgitte Nyborg í þáttunum Borgen.EPA

Løkke sagði skilið við flokkinn árið 2019 eftir að hafa misst formannsstólinn í hendur Jakob Ellen-Jensen í kjölfar ósigurs í kosningunum sama ár. Hann tilkynnti svo um stofnun nýs flokks í júní 2021, Moderaterne, sem hann lýsir sem miðjuflokki. 

Segir forsætisráðherrann fyrrverandi að markmiðið með stofnun flokksins sé að brjóta upp „lásana“ milli hægri- og vinstrivængsins og koma á ríkisstjórn flokka yfir miðjuna. Í síðustu viku sagði Løkke að hann vildi komast í ríkisstjórn en að ljóst væri að nauðsynlegt væri að Jafnaðarmannaflokkur Mette Frederiksen yrði hluti af slíkri stjórn.

Margir Danir hafa rætt líkindin milli Løkke og stofnun Moderaterne annars vegar og söguþráðs sjónvarpsþáttanna Borgen hins vegar. Aðalpersóna þáttanna er Birgitte Nyborg sem verður forsætisráðherra og segir síðar skilið við flokkinn sinn og stofnar eigin miðjuflokk; De Moderate.

Søren Pape Poulsen er formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherraefni flokksins.EPA

Danmerkurdemókratar á siglingu

Hinn nýi flokkurinn sem hefur verið á siglingu í könnunum eru Danmerkurdemókratar, flokkur Støjberg, sem hefur talað fyrir harðri stefnu í málefnum innflytjenda, auk þess að setja málefni landsbyggðarinnar á oddinn. Flokkurinn mælist nú fjórði stærsti með um níu prósenta fylgi.

Støjberg stofnaði flokkinn í sumar og sagði hún að flokkurinn myndi leggja sérstaka áherslu á málefni Dana utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta eigi sér í lagi við um heilbrigðismál, starfsumhverfi fyrirtækja, matvælaframleiðslu og dagleg verkefni hins almenna borgara. Hún segir að „borgaraleg, almenn skynsemi“ verði leiðarljós flokksins.

Inger Støjberg, formaður Danmerkurdemókrata, er á hægjum þessa dagana eftir að hafa slasast þegar hún hrasaði yfir hundinn sinn.EPA

Støjberg var í desember á síðasta ári dæmd í sextíu daga óskilorðsbundið fangelsi af Ríkisrétti Danmerkur. Hún var sakfelld af ákæru um að hafa látið stía í sundur ungum hælisleitendum í ráðherratíð sinni, 2015 til 2019. 

Støjberg var talin hafa gefið út ólögmæt fyrirmæli um að láta aðskilja gifta hælisleitendur sem væru yngri en átján ára við komuna til Danmerkur. Tuttugu og þrjú pör voru aðskilin að skipan ráðherrans árið 2016 og voru sum þeirra voru með börn.


Tengdar fréttir

Frederik­sen boðar til þing­kosninga 1. nóvember

Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til þingkosninga í landinu þann 1. nóvember næstkomandi. Frá þessu greindi forsætisráðherrann á blaðamannafundi klukkan 11 í morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.