Erlent

Heitir því að festa Roe í lög ef demókratar ná meirihluta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden segir kosningarnar í nóvember snúast um rétt kvenna til að velja.
Biden segir kosningarnar í nóvember snúast um rétt kvenna til að velja. AP/Evan Vucci

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að festa niðurstöðu Roe gegn Wade í lög ef demókratar ná meirihluta í báðum deildum í þingkosningunum sem fara fram í nóvember.

Það er á brattann að sækja fyrir demókrata en vonir standa til að verulegt bakslag í baráttunni fyrir rétti kvenna til þungunarrofs muni verða stuðningsmönnum hvatning til að mæta á kjörstað.

„Ef þér stendur ekki á sama um réttinn til að velja, verður þú að mæta á kjörstað,“ sagði Biden á viðburði í Washington í gær. Biðlaði hann til fólks um að halda fast í tilfinninguna sem það upplifði þegar fregnir bárust af því að hæstiréttur landsins hefði snúið niðurstöðunni í Roe gegn Wade.

Ákvörðun hæstaréttar blés báðum fylkingum í brjóst en Biden sagði kosningarnar í nóvember í raun snúast um tvo valkosti; hvort menn vildu veita repúblikönum umboð til að koma á allsherjar banni gegn þungunarrofi á landsvísu, eða festa rétt kvenna til þungunarrofs í lög.

Meirihluti Bandaríkjamanna er fylgjandi þungunarrofum en kannanir benda hins vegar til þess að efnahagsmál séu í forgrunni hjá kjósendum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×