Enski boltinn

Kanté missir að öllum líkindum af HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
N'Golo Kanté er að glíma við meiðsli aftan í læri.
N'Golo Kanté er að glíma við meiðsli aftan í læri. Darren Walsh/Getty Images

Það virðast litlar sem engar líkur á því að N‘Golo Kanté geta hjálpað Frakklandi að verja heimsmeistaratitil sinn í knattspyrnu þegar HM fer fram í Katar undir lok þessa árs. Talið er að miðjumaðurinn öflugi verði frá næstu þrjá mánuðina vegna meiðsla aftan í læri.

Hinn 31 árs gamli Kanté hefur verið frá keppni síðan Chelsea gerði 2-2 jafntefli við Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni þann 14. ágúst síðastliðinn. Samkvæmt heimildum The Athletic hafði leikmaðurinn hafið æfingar að nýju en bakslag kom í meiðslin og nú er talið að hann verði frá í þrjá mánuði til viðbótar.

Kanté hefur glímt við meiðsli undanfarin misseri og er það talin ástæða þess að Chelsea sé ekki tilbúið að bjóða honum nýjan langtíma samning. Miðjumaðurinn verður samningslaus næsta sumar.

Sem stendur verður að teljast ólíklegt að Kanté verði hluti af franska landsliðinu sem reynir að verja heimsmeistaratitil sinn í Katar. Hann er ekki eini miðjumaðurinn sem verður fjarri góðu gamni en litlar líkur eru á að Paul Pogba, leikmaður Juventus, verði með þar sem hann er einnig að glíma við meiðsli.

HM hefst þann 21. nóvember næstkomandi og er Frakkland í D-riðli ásamt Ástralíu, Danmörku og Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×