Umfjöllun: Leiknir R.-ÍA 2-2 | Jafntefli í Breiðholti

Sindri Már Fannarsson skrifar
Aron Bjarki Jósepsson skoraði fyrra mark Skagamanna í dag.
Aron Bjarki Jósepsson skoraði fyrra mark Skagamanna í dag. Vísir/Hulda Margrét

Leiknir og ÍA gerðu 2-2 jafntefli í sannkölluðum botnslag í Bestu-deildinni í dag. 

Fyrir leikinn sátu Skagamenn í 12. og neðsta sæti deildarinnar með 18 stig en Leiknir í því 11. með 20 stig. Bæði lið þurftu því á sigri að halda, á meðan þau óskuðust eftir hagstæðum úrslitum í leik Keflavíkur og FH. Allt kom þó fyrir ekki, liðin skildu jöfn og FH sigraði í Keflavík. Skagamenn eru nú sex stigum á eftir FH og Leiknir fjórum stigum á eftir FH, bæði lið eru þó með talsvert lakari markatölu en Hafnfirðingar.

Leikurinn fór hratt af stað og bæði lið mættu af mikilli hörku. Mikkel Jakobsen komst í dauðafæri strax á fyrstu mínútu eftir háan bolta aftur fyrir vörn Skagamanna en náði ekki að stýra boltanum framhjá Árna Snæ í marki ÍA. Leiknismenn þurftu svo ekki að bíða lengi eftir næsta færi en strax á þriðju mínútu kom Emil Berger Breiðhyltingum yfir eftir frábæra sendingu frá Birgi Baldvinssyni.

Það var hart barist um alla bolta í dag.Hulda Margrét

Skagamenn svöruðu svo strax fyrir sig, Steinar Þorsteinsson gaf aukaspyrnu inn á teiginn og Aron Bjarki skallaði í markið. Leiknismenn vildu fá vítaspyrnu stuttu seinna en Erlendur Eiríksson dómari gaf lítið fyrir það og spjaldaði Zean Peetz Dalügge fyrir kjaftbrúk. Leiknismenn gerðu svo annað tilkall til aukaspyrnu á 26. mínútu en fengu ekki. Mínútu síðar sendi Emil Berger frábæra sendingu á fjærstöngina þar sem Bjarki Aðalsteinsson var einn og óvaldaður og skoraði auðveldlega með skalla.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks jöfnuðu Skagamenn aftur, Steinar Þorsteinsson átti flotta sendingu á Viktor Jónsson sem skallaði boltann inn af miklu öryggi. Allt jafnt eftir hörku fyrri hálfleik, fjögur gul spjöld komin á loft.

Viktor Jónsson kemur boltanum í mark Leiknis.Hulda Margrét

Seinni hálfleikur var talsvert rólegri, Emil Berger átti mjög gott skot á 55. mínútu sem Árni Snær Ólafsson varði meistaralega í stöngina. Skagamenn áttu sömuleiðis flott færi í seinni hálfleik, þar sem Viktor Jónsson fékk sendingu inn á markteiginn og reyndi að tækla boltann inn í netið en nafni hans í marki Breiðhyltinga gerði mjög vel til að loka á færið. Leikurinn rann út í sandinn án mikilla tíðinda og það er orðið nokkuð ljóst að ÍA og Leiknir munu keppa í Lengjudeildinni næsta sumar.

Af hverju var jafntefli?

Hvorugt liðanna náði stjórn á leiknum. Leiknismenn áttu vissulega fleiri góð færi og hefðu mátt nýta þau betur en þeir stjórnuðu aldrei spili leiksins. Liðin skiptust á færum og á köflum var þetta eins og handboltaleikur þar sem liðin skiptust bara á að sækja.

Hverjir voru bestir?

Emil Berger var maður leiksins. Hann var langmesta ógnin á vellinum, skoraði eitt og lagði upp annað. Flestar sóknir Leiknismanna komu út frá honum. Árni Snær Ólafsson átti einnig flottan leik á milli stanga ÍA.

Hvað mætti betur fara?

Það sem vantaði upp á hjá báðum liðum var að ná tökum á leiknum. Bæði lið komust í fín færi en hvorugt þeirra stjórnaði spilinu. Skagamenn áttu erfitt með að verjast löngum boltum Leiknismanna yfir vörnina og á sóknarmennina en Leiknismenn áttu erfitt með að verjast fyrirgjöfum Skagamanna.

Hvað gerist næst?

Eins og stendur eru bæði lið nánast fallin úr Bestu deildinni. Bæði lið þurfa að treysta á að FH tapi í tveimur síðustu umferðum mótsins til að eiga séns, auk þess að vinna sína eigin leiki. Skaginn þyrfti einnig að leiðrétta 23 markatölumun sem verður að teljast ansi ólíklegt að takist. ÍA og Leiknir munu að öllum líkindum keppa í Lengjudeildinni næsta sumar, þó það sé ekki alveg staðfest.

Ofsalegur október getur verið kaldur á Íslandi.Hulda Margrét

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira