Íslenski boltinn

Geta orðið níunda félagið frá 1970 til að vinna titilinn í borgaralegum klæðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikar fagna einu marka sinn í Bestu deild karla í sumar.
Blikar fagna einu marka sinn í Bestu deild karla í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik getur orðið Íslandsmeistari í kvöld þrátt fyrir að þeir séu ekki sjálfir að spila. Sú staða kom upp eftir sigur Blika á Akureyri um helgina.

Blikar hafa ellefu stiga forskot á Víkinga sem mæta Stjörnunni í Garðabænum í kvöld. Takist Víkingum ekki að vinna leikinn þá eru ekki nógu mörg stig í pottinum fyrir þá (9) til að vinna upp 10 eða 11 stiga forskot Breiðabliksliðsins.

Leikur Stjörnunnar og Víkings verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en hann hefst klukkan 19.15.

Frá árinu 1970 hafa átta félög unnið titilinn eftir hagstæð úrslit á degi þegar þau eru ekki að spila. Eitt lið að auki hefur síðan síðan orðið Íslandsmeistari eftir að keppni var hætt vegna kórónuveirunnar. Níu félög á síðustu fimmtíu árum hafa því unnið Íslandsmeistaratitilinn í borgaralegum klæðum

Valsmenn unnu titilinn í borgaralegum klæðum sumarið 2020 eftir að keppni var hætt þegar fjórar umferðir voru eftir af mótinu.

Heimir Guðjónsson þjálfaði það Valslið og hann var einnig þjálfari FH-liðsins sumarið 2016 sem er síðasta liðið til að verða Íslandsmeistari þökk sé úrslit í öðrum leik þegar þau eru ekki að spila.

Breiðablik náði ekki að vinna ÍBV daginn eftir að FH-ingar gerðu jafntefli við Valsmenn. FH gátu tryggt sér titilinn með sigri í Valsleiknum en fögnuðu í staðinn titilinn kvöldið eftir.

Þetta var í fyrsta sinn í 21 ár þar sem lið fagnaði Íslandsmeistaratitlinum án þess að spila eða síðan að Skagamenn urðu meistarar 1995. Valsmenn tryggðu Skagamönnum þá titilinn með því að vinna KR 2-1 daginn eftir að ÍA vann sinn leik í umferðinni. Þá voru þrjár umferðir eftir af mótinu.

Hér fyrir neðan má sjá alla svokallaða sófameistara á Íslandsmóti karla undanfarin hálfa öld.

Íslandsmeistarar í borgaralegum klæðum 1970-2021:

2020 - Valur

Íslandsmótið flautað af vegna kórónuveirunnar

2016 - FH

Blikar náði ekki að vinna sinn leik daginn eftir

1995 - ÍA

Valsmenn unnu KR-inga daginn eftir

1979 - ÍBV

Valsmenn náðu ekki að vinna KA daginn eftir

1977 - ÍA

Valsmenn náðu ekki að vinna Víkinga tveimur dögum eftir lokaleik ÍA

1975 - ÍA

Fram tapaði fyrir Val daginn eftir leik Skagamanna

1973 - Keflavík

Valsmenn náðu ekki að vinna Skagamenn daginn fyrir lokaleik Keflavíkur

1972 - Fram

Eyjamenn náðu bara jafntefli við Val þegar Framarar áttu tvo leiki eftir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×