Enski boltinn

Milljónir vildu losna við Haaland

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland er ekki á förum frá Englandi í bráð.
Erling Haaland er ekki á förum frá Englandi í bráð. Getty/Pedro Salado

Yfir tvær milljónir manna tóku þátt í undirskriftasöfnun þar sem þess var krafist að Erling Haaland yrði vikið úr ensku úrvalsdeildinni „fyrir að vera vélmenni“.

Haaland hefur verið stórkostlegur fyrstu mánuði sína sem leikmaður Manchester City og þegar skorað nítján mörk í tólf leikjum. Að auki hefur hann gefið þrjár stoðsendingar.

Norðmaðurinn ætti líklega að líta á það sem hrós frekar en nokkuð annað að stuðningsmenn annarra liða eru farnir að óttast hann svo mikið að þeir vilja losna við hann frá Englandi.

Svo langt gengu gárungarnir að setja af stað undirskriftasöfnun á sérstökum undirskriftasöfnunarvef breskra stjórnvalda, með yfirskriftinni: „Undirskriftasöfnun til að Erling Haaland verði fjarlægður úr ensku úrvalsdeildinni fyrir að vera vélmenni“.

Svona leit undirskriftasöfnunin út. Skjáskotið var tekið snemma í söfnuninni en yfir 2 milljónir skrifuðu undir áður en söfnunin var fjarlægð af síðu breskra stjórnvalda.Skjáskot/petition.parliament.uk

Spænski miðillinn AS segir að yfir tvær milljónir undirskrifta hafi verið komnar áður en að söfnunin var fjarlægð af síðunni. Bresk stjórnvöld virðast því ekkert ætla að gera í málinu heldur leyfa Haaland að raða áfram inn mörkum af sinni alkunnu snilld.

Fleiri undirskriftasafnanir með þeirri yfirskrift að koma eigi Haaland frá Englandi hafa þó verið settar í gang, til að mynda á Change.org.

Haaland er með samning við Manchester City sem gildir til ársins 2027. Pep Guardiola, knattspyrnustjóri liðsins, sagði frá því í vikunni að orðrómar þess efnis að einhvers konar klásúla væri í samningnum, sem gerði Haaland kleift að fara til annars félags fyrir ákveðna upphæð, væru ósannir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.