Enski boltinn

Hafnar orðrómnum um klásúlu í samningi Haalands

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland og félagar hans fagna marki gegn FC Kaupmannahöfn í Manchester í gærkvöld.
Erling Haaland og félagar hans fagna marki gegn FC Kaupmannahöfn í Manchester í gærkvöld. EPA-EFE/PETER POWELL

Pep Guardiola sagði við blaðamenn eftir sigur Manchester City í gærkvöld að ekkert væri til í þeim sögusögnum að Erling Haaland væri með klásúlu í sínum samningi sem gerði honum kleift að fara frá félaginu til Real Madrid.

Samkvæmt fréttum frá Spáni í aðdraganda leiks City við FC Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni í gær þá átti Haaland að vera með klásúlu sem gerði Real Madrid kleift að kaupa hann fyrir 200 milljónir evra eftir tvö ár, eða fyrir 175 milljónir evra árið 2025.

Þessa klásúlu átti Norðmaðurinn að hafa sett í samninginn sem hann skrifaði undir hjá City sem gat keypt hann frekar ódýrt (fyrir 60 milljónir evra) frá Dortmund í sumar einmitt vegna klásúlu í samningi hans við þýska félagið.

„Þetta er ekki satt,“ sagði Guardiola um fréttirnar frá Spáni. „Hann er ekki með neina klásúlu til að fara til Real Madrid eða nokkurs annars félags. Þetta er ekki satt. Hvað get ég sagt? Ég held að hann sé afskaplega ánægður hérna og við munum reyna að gera hann glaðan.

Það er ekki hægt að vera að hafa áhyggjur af orðrómum. Við verðum að hugsa um það sem við höfum stjórn á,“ sagði Guardiola, eftir 5-0 stórsigurinn gegn FCK.

Haaland skoraði tvö mörk í leiknum og hefur nú skorað 19 mörk í 12 leikjum fyrir Manchester City. Hann var tekinn af velli í hálfleik enda mikið af krefjandi leikjum fram undan þar til að HM-hléið tekur við eftir sex vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×