Erlent

Á­rásar­maðurinn í Kanada einn að verki og myrti bróður sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Bræðurnir Damien (31 árs) og Myles Sanderson (32 ára) voru í fyrstu taldir hafa framið morðin saman. Nú segir lögreglan að Myles hafi verið einn að verki og drepið bróður sinn.
Bræðurnir Damien (31 árs) og Myles Sanderson (32 ára) voru í fyrstu taldir hafa framið morðin saman. Nú segir lögreglan að Myles hafi verið einn að verki og drepið bróður sinn. Vísir/Getty

Kanadíska lögreglan segir nú að karlmaður sem stakk ellefu manns til bana í Saskatchewan í síðasta mánuði hafi verið einn að verki. Hann hafi einnig myrt bróður sinn sem var í fyrstu talinn hafa tekið þátt í morðæðinu.

Víðtæk leit að bræðrunum Myles og Damien Sanderson hófst eftir að tíu manns voru stungnir til bana í fjöldamorði sem skók kanadísku þjóðina 4. september. Níu þeirra sem voru myrtir voru frumbyggjar.

Damien fannst látinn eftir árásina en Myles lést í haldi lögreglu eftir að hann var tekinn höndum 7. september.

Bræðurnir eru báðir sagðir hafa lagt á ráðinn um morðin og undirbúið þau. Af einhverri ástæðu myrti Myles bróður sinn Damien. Rhonda Blackmore, yfirmaður kanadísku riddaralögreglunnar í Saskatchewan, sagði að Damien hefði ekki tekið þátt í morðunum.

Hún tók ekki af tvímæli um hvort að Damien hafi verið drepinn fyrir eða eftir fjöldamorðið eða hvort hann hafi tekið einhvern þátt í að ráðast á fólk, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC

Bræðurnir eru sagðir hafa selt eiturlyf í samfélagi frumbyggja kvöldið fyrir fjöldamorðið. Þeir hafi í þrígang lent í útistöðum við fólk þann dag sem ekki var tilkynnt um til lögreglu. Lögreglumenn höfðu þó afskipti af Damien í tengslum við bíl sem hann stal þá um kvöldið. Hann gaf lögreglu hins vegar upp rangt nafn.

Blackmore sagði fjölmiðlum að aldrei yrði vitað hvers vegna Myles framdi morðin.

Óljóst er hvernig Myles lést. Réttarmeinafræðingur segir að líklega verði ekki greint frá dánarorsök hans fyrr en á næsta ári þegar tveimur óháðum rannsóknum lýkur. Kanadískir fjölmiðlar hafa eftir heimildarmönnum sínum að Myles hafi tekið inn töflur skömmu áður en hann var handtekinn og hann hafi látist af ofskammti.


Tengdar fréttir

Hinn á­rásar­maðurinn lést í haldi lög­reglu

Kanadamaðurinn Myles Sanderson, sem grunaður er um að hafa stungið tíu til bana og sært átján í röð árása í héraðinu Saskatchewan fyrr í vikunni, lést í gærkvöldi stuttu eftir að hann var handtekinn af lögreglu.

Seinni á­rásar­maðurinn í haldi lög­reglu

Annar þeirra sem var leitað eftir stunguárásirnar í Saskachewan í Kanada nú a dögunum hefur verið handsamaður. Tveir árásarmenn eru sagðir hafa verið að verki og fannst annar þeirra sem lágu undir grun látinn daginn eftir að árásirnar áttu sér stað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.