Íslenski boltinn

Hneyksluð á tilkynningu Sigurðar: „Mér finnst þetta alveg galið“

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Höskuldsson hættir sem þjálfari Leiknis eftir tímabilið.
Sigurður Höskuldsson hættir sem þjálfari Leiknis eftir tímabilið. vísir/Diego

Guðmundur Benediktsson og sérfræðingar hans í Stúkunni voru vægast sagt ekki hrifin af þeirri ákvörðun að Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, skyldi í gær tilkynna sínum leikmönnum að hann myndi hætta sem þjálfari þeirra eftir tímabilið.

Leiknismenn eru í bullandi fallbaráttu, einu stigi fyrir ofan FH sem situr í fallsæti í Bestu deildinni. Liðin mætast í leik upp á líf og dauða í Kaplakrika á sunnudaginn.

Guðmundur greindi frá því í gær að Sigurður hefði tilkynnt leikmönnum á æfingu að hann myndi láta af störfum eftir mótið. Sagði Guðmundur ástæðuna þá að Sigurður yrði aðstoðarþjálfari Vals sem eftir tímabilið fengi Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfara KA, sem aðalþjálfara.

Það eru hins vegar fjórar umferðir eftir af Bestu deildinni og líf Leiknismanna í deildinni hangir á bláþræði:

„Hvers vegna í andskotanum erum við að tilkynna það eitthvað að við ætlum að hætta, þegar það eru fjórir leikir eftir upp á líf og dauða?“ spurði Guðmundur þau Mána Pétursson og Margréti Láru Viðarsdóttur en brot úr Stúkunni má sjá hér að neðan.

Klippa: Stúkan - Umræða um brotthvarf Sigurðar

„Skil ekki af hverju þessi tilkynning mátti ekki bíða“

„Ég á ekki til orð yfir þessu,“ sagði Máni. „Mér finnst þetta svo galið. Ég held að þetta séu frábær tíðindi fyrir FH-ingana að mæta Leiknismönnum svona gíruðum: „Heyrðu, þjálfarinn okkar er að fara að hætta, og við erum hérna í botnbaráttu“.

Ég skil ekki af hverju þessi tilkynning mátti ekki bíða. Búum við í þannig slúðursamfélagi að það þurfi allir alltaf að vera að tala? Þó að þetta hefði verið orðrómur þá hefði þetta bara getað verið einhver orðrómur. Menn trúa ekki öllu sem sagt er í hlaðvarpsþáttum, alla vega fæstir sem ég þekki. Mér finnst þetta alveg galið og ekki góð tíðindi fyrir Leiknismenn. Það er líka ekki þægilegt fyrir Sigga að ætla að fara að gíra partíið áfram núna,“ sagði Máni og Margrét Lára tók í sama streng.

„Allt of góður þjálfari til að vera aðstoðarþjálfari“

Guðmundur sagði að Arnar Grétarsson hefði hringt í leikmann Leiknis og spurst fyrir um hvernig þjálfari Sigurður væri, og að hann hefði fengið mjög góð meðmæli. Málið hefði svo verið klárað og Sigurður yrði aðstoðarþjálfari Vals

„Siggi er allt of góður þjálfari til að vera aðstoðarþjálfari,“ sagði Máni sem vill að Sigurður reyni áfram fyrir sér sem aðalþjálfari:

„Fyrir mér er þetta einn efnilegasti þjálfari sem við eigum og ég væri mest hrifinn af því að hann myndi stýra sinni eigin skútu. Að hann væri ekki bara þarna að skipta um segl, ef maður orðar það þannig.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.