Erlent

Vonast til að öryggis- og varnarsamstarf borgi rekstur Kangerlussuaq-flugvallar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Airbus A330-breiðþota Air Greenland á flugvellinum í Kangerlussuaq, sem áður hét Syðri-Straumfjörður. Bombardier-vél Flugfélags Íslands sést fyrir framan. Þetta er eini flugvöllur Grænlands í dag sem tekur við þotum í áætlunarflugi.
Airbus A330-breiðþota Air Greenland á flugvellinum í Kangerlussuaq, sem áður hét Syðri-Straumfjörður. Bombardier-vél Flugfélags Íslands sést fyrir framan. Þetta er eini flugvöllur Grænlands í dag sem tekur við þotum í áætlunarflugi. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Stærsti stjórnmálaflokkur Grænlands, Siumut, vonast til að samningar um öryggis- og varnarsamstarf við danska herinn, og hugsanlega einnig Bandaríkin, greiði hluta af þeim kostnaði sem fylgir því að reka flugvöllinn í Kangerlussuaq áfram eftir að hann missir hlutverk sitt sem aðalflugvöllur Grænlands eftir tvö ár. Þetta sagði talsmaður flokksins, Doris J. Jensen, í umræðum í grænlenska þinginu í liðinni viku.

Kangerlussuaq, eða Syðri-Straumfjörður, eins og hann var lengi nefndur, hefur verið aðaltenging Grænlendinga við umheiminn en 2.800 metra löng flugbrautin er sú eina í landinu sem þjónar millilandaflugi á stórum þotum. Það breytist þegar nýjar 2.200 metra langar flugbrautir í Nuuk og Ilulissat verða teknar í notkun árið 2024.

Ein flugbraut, 2.800 metra löng, er í Kangerlussuaq. Flugvallarstæðið þykir veðurfarslega eitt það besta á Grænlandi en Bandaríkjaher valdi það undir herflugvöll í síðari heimsstyrjöld. Staðurinn er hins vegar fjarri helstu byggðum Grænlendinga.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Með samningi við dönsk stjórnvöld fyrir þremur árum framlengdi grænlenska landsstjórnin líf Kangerlussuaq-flugvallar en danski herinn mun taka við honum. Við blasti að svo fámennt land með fimmtán prósent af íbúafjölda Íslands myndi tæplega geta staðið undir rekstri þriggja alþjóðaflugvalla. Eftir stóðu spurningar um hvort þar yrði áfram borgaralegt flug og hversu mikið höggið yrði fyrir fimmhundruð manna þorp við Kangerlussuaq, sem algerlega byggir tilveru sína á rekstri flugvallarins.

Á dagskrá þingsins í Nuuk í vikunni var einmitt frumvarp um opinbert rekstrarfélag flugvallanna og samkvæmt frétt Sermitsiaq snerist umræðan meðal annars um Kangerlussuaq-flugvöll. Þar vildi formaður stjórnarandstöðuflokksins Naleraq, Pele Broberg, fá svör frá Siumut-flokknum um hvernig flokkurinn hygðist finna fjármuni til að halda vellinum í Kangerlussuaq opnum, en Siumut leysti Naleraq-flokkinn af í landsstjórn Grænlands í aprílbyrjun sem samstarfsflokkur Inuit Ataqatigiit, flokks forsætisráðherrans Múte B. Egede.

Fyrir lá áætlun um að það myndi kosta árlega 158 milljónir danskra króna, andvirði þriggja milljarða íslenskra, að reka flugvöllinn áfram sem borgaralegan alþjóðaflugvöll en 105 milljónir danskra króna, andvirði tveggja milljarða íslenskra, ef hann ætti aðeins að þjóna borgaralegu innanlandsflugi.

Flugfélag Íslands hélt um tíma uppi áætlunarflugi til Kangerlussuaq. Bombardier Q400-vél Flugfélagsins, Þórunn hyrna, á flugvellinum haustið 2016.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Doris J. Jensen, sem svaraði fyrir hönd Siumut, sagði að góðar vonir væru enn bundnar við viðræður um varnarmál við Dani, og kannski einnig Bandaríkin, um áframhaldandi rekstur Kangerlussuaq og vísaði til áhuga Bandaríkjamanna á Grænlandi. Sagði Doris að öryggis- og varnarsamningar gætu hjálpað til að tryggja fjárhag flugvallarins.

Formaður Siumut, Erik Jensen, sem jafnframt er innviðaráðherra, sagði fjárhagslegar tölur geta breyst eftir því sem samningaviðræðum við Dani vindur fram.

„Viðræður eru í gangi og við heyrum að þeir vilja að þeim ljúki eins fljótt og auðið er,“ sagði Erik Jensen.

Önnur leið sem rædd er til að styrkja rekstrargrunn grænlensku flugvallanna er að leggja skatt á alla flugfarþega. Fram kemur í athugasemdum frumvarpsins að landsstjórnin vinni að því að skoða kosti og galla þess að taka upp slíkan skatt.

Fjallað var um samning Dana og Grænlendinga um Kangerlussuaq í þessari frétt Stöðvar 2 haustið 2019:

Kangerlussuaq var meðal þeirra staða á Grænlandi þar sem Hrafn Jökulsson breiddi út skákina, sem sjá má í þessari frétt:

Kangerlussuaq var fyrsti staðurinn utan Íslands sem Eliza Reid heimsótti sem forsetafrú þegar Flugfélag Íslands fagnaði nýjum áfangastað á Grænlandi haustið 2016:


Tengdar fréttir

Grænlendingar byggja upp nýtt flugvallakerfi

Grænlensk stjórnvöld áforma stórfelldar flugvallaframkvæmdir sem gjörbreyta flugsamgöngum við landið og gætu styrkt tengsl Íslands og Grænlands enn frekar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×