Enski boltinn

Guardiola mærir Ten Hag í aðdraganda Manchester slagsins

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Baráttan um Manchester borg fer fram í dag.
Baráttan um Manchester borg fer fram í dag. vísir/Getty

Baráttan um Manchester borg fer fram í dag og er leiksins að venju beðið með mikilli eftirvæntingu.

Fimm stig skilja liðin að í öðru (Man City) og sjötta (Man Utd) sæti deildarinnar en Man Utd hefur leikið einum leik minna en City og getur Erik Ten Hag komið liði sínu á góðan stað í töflunni með því að leggja nágrannana að velli í dag.

Stuðningsmenn Man Utd eru líklega mátulega bjartsýnir fyrir verkefni dagsins en Man City vann leik liðanna á Etihad leikvangnum á síðustu leiktíð, 4-1.

Nú er hins vegar nýr maður við stjórnvölin hjá Man Utd; maður sem Pep Guardiola, stjóri Man City, kveðst hafa miklar mætur á.

„Ég hef mikið álit á Erik. Ég hef fylgst með því sem hann hefur gert í Hollandi og þá sérstaklega með Ajax undanfarin ár. Þar vann hann ótrúlegt starf sem öll Evrópa tók eftir,“ sagði Guardiola áður en hann varaði hollenska kollega sinn við.

„En hann veit að þetta snýst allt saman um úrslit. Ástæðan fyrir því að ég er enn hér er sú að við höfum unnið titla; annars væri ég ekki hér lengur.“

„Úrslit gefa þér tíma til að byggja upp hvað sem þú vilt. Ég tel vera unnið gott starf hjá Man Utd og þeir fengu Erik til sín af því að þeir trúa því að hann sé rétti maðurinn fyrir þá,“ sagði Guardiola.

Leikur Man City og Man Utd hefst klukkan 13:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.