Erlent

Segir trúverðugleika Rússa minnkandi sem gæti aukið hömluleysið

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Friðrik Jónsson er sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum. Hann segir áróðursstríð Rússa vera orðið hið vandræðalegasta. 
Friðrik Jónsson er sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum. Hann segir áróðursstríð Rússa vera orðið hið vandræðalegasta.  Stöð 2/Arnar

Sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum segir sigur Úkraínumanna í Lyman í dag mikið áfall og bakslag í áróðursstríði Rússa. Áhyggjuefni sé að leið Rússa úr slíkum ógöngum sé að stigmagna aðgerðir og verða hömulausari.

Friðrik Jónsson, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, ræddi vendingar dagsins í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segir sigur Úkraínumanna yfir Lyman, mikilvægum bæ í einu héraðinu sem innlimað var í Rússland með formlegri athöfn í gær, vera fyrst og fremst vandræðalegan fyrir Rússa.

„Í fyrsta lagi er þetta mikið áfall og í öðru lagi, frá sjónarhóli áróðursstríði Rússa, þá er þetta mikið bakslag. Þetta er beint í kjölfarið á þessari dans- og sönghátíð í gær þar sem Pútín lýsti yfir yfirtöku á þessum fylkjum í Úkraínu þannig að þetta er vandræðalegt. Þetta sýnir að heraflanum er illa stýrt og það hefur áhrif á Pútín sjálfan sem er meira farinn að skipta sér af stjórn stríðsins.“

Rússneskir leiðtogar skammast hver í öðrum

Friðrik segir herkvaðningu í Rússlandi ekki bæta stöðuna, þvert á móti flækja málin þar sem Rússar virðist ekki ráða við þá aðgerð. „Fréttir berast af því að fólk sem kallað er til í þessari herkvaðningu fái ekki búnað, vopn, búninga eða þjálfun. Það er verið að skófla því á frontinn. Þetta er allt hið pínlegasta.“

Staðan sé veikleikamerki fyrir Rússa og það sjáist best á skömmunum sem fara á milli rússneskra leiðtoga. „Kadyrov, leiðtogi Tjetjena er mjög stóryrtur á Telegram í dag og hreinlega kallar eftir því að leiðtogi hersins á svæðinu verði rekinn og að Asimov, yfirherforingi rússneska hersins, verði látinn víkja líka – og kallar eftir notkun á „taktískum“ kjarnavopnum.“

Næstu skref Rússa áhyggjuefni

Staðan sé því öll sú vandræðalegasta fyrir Rússa en erfitt sé að sjá hvernig þeir ætli að snúa henni við. „Leið Rússa úr svona ógöngum er að stigmagna og verða hömlulausari í sínum aðgerðum. Það er það sem veldur manni áhyggjum.“

Friðrik segir sýningu Rússa í gær á innlimun fjögurra héraða Úkraínu fyrst og fremst vera innanlandspólitík og í mesta lagi styrkja ímynd stjórnarinnar hjá almenningi. „En þegar það kemur svona niðurlæging á vígvellinum beint í framhaldi þá er erfitt að sjá hvernig trúverðugleikinn á að halda, meira að segja innanlands.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×