Enski boltinn

Hefur eytt 130 milljónum í hinar ýmsu lausnir til að bæta leik sinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emerson Royal verður seint sakaður um að leggja ekki nægilega mikið á sig til að verða betri fótboltamaður.
Emerson Royal verður seint sakaður um að leggja ekki nægilega mikið á sig til að verða betri fótboltamaður. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Brasilíumaðurinn Emerson Royal, hinn skrautlegi bakvörður Tottenham, hefur á undanförnum mánuðum eytt tæpum 130 milljónum króna í hinar ýmsu lausnir til að bæta sig sem knattspyrnumaður. Hann hefur meðal annars ráðið njósnara til að fylgjast með Achraf Hakimi, bakverði PSG.

Þessi 23 ára leikmaður hefur verið fastamaður í byrjunarliði Tottenham undir stjórn Antonio Conte á tímabilinu, en margir stuðningsmenn Tottenham eru þó á þeirri skoðun að það sé einungis vegna þess að ekkert betra sé í boði.

Emerson verður þó seint sakaður um það að leggja ekki nógu mikla vinnu og peninga í það að reyna að bæta leik sinn. Nú hafa fréttir borist af því að hann hafi eytt um 800 þúsund pundum, eða rétt tæplega 130 milljónum króna, í hinar ýmsu lausnir til að verða betra knattspyrnumaður.

Leikmaðurinn er meðal annars sagður hafa keypt sér háþrýstings súrefnisklefa (e. hyperbaric oxygen chamber), ráðið taugasérfræðing til starfa og fengið njósnara til að fylgjast náið með Achraf Hakimi, bakverði PSG, sem Emerson vill ólmur læra af.

Hakimi lék á sínum tíma undir stjórn Antonio Conte hjá ítalska úrvalsdeildarfélaginu Inter þar sem leikmaðurinn skoraði sjö mörk í 45 leikjum í hægri bakverði. Emerson hefur einmitt reglulega verið gagnrýndur fyrir framlag sitt sóknarlega.

Emerson og félagar hans í Tottenham heimsækja Arsenal í Lundúnaslag klukkan 11:30 í dag og geta með sigri stolið toppsætinu af erkifjendum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×