Enski boltinn

„Engillinn minn, ástin mín, Sean Dyche“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tónlistargoðsögnin Elton John hreifst af Sean Dyche hjá Watford.
Tónlistargoðsögnin Elton John hreifst af Sean Dyche hjá Watford. epa/Hugo Marie

Sean Dyche, fyrrum stjóri Watford og Burnley, átti gott samband við tónlistargoðið Elton John þegar hann var hjá fyrrnefnda liðinu. Elton var eigandi Watford frá 1976 til 1990 og aftur frá 1997 til 2002 og er heiðursforseti félagsins.

Dyche var leikmaður Watford frá 2002 til 2005 og varð þá þjálfari liðsins árið 2011, sem var hans fyrsta starf sem aðalþjálfari. Hann stýrði liðinu í 11. sæti í ensku B-deildinni sem var þá besti árangur liðsins í fjögur ár.

Hann var hins vegar látinn fara sumarið 2012, eftir aðeins ár í starfi, þar sem Pozzo-fjölskyldan frá Ítalíu festi kaup á félaginu og vildi ráða sinn eigin þjálfara.

Dyche var nýverið gestur í Proper Football-hlaðvarpinu hjá breska ríkisútvarpinu, BBC, þar sem hann segist hafa átt gott samband við Elton John og að tónlistarstjarnan hafi meira að segja gefið honum viðurnefni.

„Ég hitti hann nokkrum sinnum, segir Dyche. „Engillinn minn, ástin mín,“ merkti hann mig. Hann segði „hér er engillinn minn, ástin mín“, áður en ég fengi frá honum stærðarinnar knús,“

Þá kallaði Elton hann út eitt sinn þegar Dyche mætti á tónleika hjá honum.

„Ég Stoney [Steve Stone] og Woany [Ian Woan] (þjálfarar í teymi Dyche hjá Burnley) fórum með eiginkonum okkar að sjá hann í Birmingham. Þegar hann gekk út á svið sagði hann: „Engillinn minn, ástin mín, Sean Dyche er hér í kvöld“,“.

Stöðugleikinn meiri hjá Dyche en Watford

Eftir að Dyche var sagt upp hjá Watford tók hann fljótlega við Burnley, hvar hann var þjálfari Jóhanns Berg Guðmundssonar frá því að hann keypti Jóhann frá Charlton árið 2016 allt þar til Dyche var sagt upp störfum í apríl síðastliðnum.

Dyche stýrði Burnley því í tíu ár og færði félaginu töluverðan stöðugleika. Óhætt er að segja að stöðugleikinn hafi verið minni hjá Watford eftir brottför hans þaðan, en líkt og greint var frá í vikunni, er Slaven Bilic nýr þjálfari liðsins og er sá sautjándi til að stýra liðinu frá því að Dyche var rekinn árið 2012.

Á þeim tíu árum sem Dyche var þjálfari Burnley voru 15 mismunandi þjálfarar sem héldu um stjórnartaumana hjá Watford.

Stjórar Watford í eigendatíð Pozzo-fjölskyldunnar, 2012-2022

  1. Gianfranco Zola (júlí 2012-desember 2013) - 75 leikir
  2. Giuseppe Sannino (desember 2013-ágúst 2014) - 36 leikir
  3. Óscar García (september 2014-september 2014) - 4 leikir*
  4. Billy McKinley (september 2014-október 2014) - 2 leikir
  5. Slavisa Jokanovic (október 2014-júní 2015) - 36 leikir**
  6. Quique Sánchez Flores (júní 2015-maí 2016) - 44 leikir
  7. Walter Mazzarri (júlí 2016-maí 2017) - 41 leikur
  8. Marco Silva (maí 2017-janúar 2018) - 26 leikir
  9. Javi Gracia (janúar 2018-september 2019) - 66 leikir***
  10. Quique Sánchez Flores (september 2019-desember 2019) - 12 leikir
  11. Nigel Pearson (desember 2019-júlí 2020) - 22 leikir****
  12. Vladimir Ivic (ágúst 2020-desember 2020) - 22 lekir
  13. Xisco Munoz (desember 2020-október 2021) - 36 leikir
  14. Claudio Ranieri (október 2021-janúar 2022) - 14 leikir
  15. Roy Hodgson (janúar 2022-maí 2022) - 18 leikir*****
  16. Rob Edwards (maí 2022-september 2022) - 11 leikir
  17. Slaven Bilic (september 2022-)
  • * García neyddist til að hætta vegna heilsubrests.
  • ** Jokanovic kom Watford upp en fékk ekki að stýra liðinu í efstu deild.
  • *** Gracia kom Watford í bikarúrslit í fyrsta sinn frá 1984.
  • **** Pearson féll með Watford.
  • ***** Hodgson féll með Watford.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×