Erlent

Nýtt konungs­merki Karls III af­hjúpað

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Merki Karls III og Elísabetar II.
Merki Karls III og Elísabetar II. AP/Buckingham Palace PA, Getty/Whiteway

Nú eftir andlát Elísabetar II Bretlandsdrottningar breytist ýmislegt til þess að marka komu nýs konungs. Til dæmis verða breytingar gerðar á útliti pundsins og nýtt konunglegt merki sem prýðir til dæmis póstkassa og byggingar verður tekið í notkun. Merki Karls III Bretlandskonungs var kynnt í gær.

Konunglegu merkin eiga sér langa sögu en hægt er að sjá mörg þeirra á póstkössum víðs vegar í konungsveldinu. Konunglegu merkin á póstkössum endurspegla hver var við stjórnvölinn þegar póstkassinn var búinn til.

Konunglegt merki Karls III var afhjúpað í gær og má sjá stafina CR á því ásamt rómverskum tölustöfum sem merkja að hann sé sá þriðji.

Á konunglegu merkjunum er titli einvaldsins og skammstöfun gjarnan blandað saman til en merki Elísabetar Bretlandsdrottningar heitinnar var til dæmis EIIR, eða Elísabet önnur drottning. Þetta má sjá í samantekt breska póstsafnsins.

Merki Viktoríu á póstkassa á Írlandi.Getty/Sergio Amiti

Þar kemur fram að stafurinn R sem má sjá í merki Elísabetar standi fyrir Regina en R í merkjum konunga standi fyrir Rex. Á latínu þýði Regina og Rex drottning og konungur.

Þó er merki Elísabetar ekki eins alls staðar. Þar sem Elísabet I var ekki drottning yfir Skotlandi samþykktu margir Skotar ekki merkinguna EIIR fyrir þá síðari. Póstkassar sem báru þá merkingu voru gjarnan skemmdir og sprengdir í loft upp í mótmælaskyni. Merkingunni var í kjölfarið breytt í Skotlandi og var skoska krúnan sett inn á merkið. Sú breyting verður einnig gerð á merki Karls III í Skotlandi. 

Merki Játvarðs VII sem var konungur frá 1901 til 1910.Getty/Whiteway

60 prósent póstkassa konungsveldisins bera merki Elísabetar. Aðeins 170 standa eftir frá valdatíð Játvarðs VII sem afsalaði sér konungstign árið 1936. Þetta kemur fram í umfjöllun BBC

Ef vel er að gáð má enn finna póstkassa innan veldisins sem merktir eru Viktoríu drottningu sem var drottning frá árinu 1837 til dauðadags árið 1901. Merki Viktoríu er VR eða Victoria Regina.

Hér að ofan má sjá merki konungleg merki bresku krúnunnar allt frá valdatíð Viktoríu drottningu frá árinu 1837 til valdatíðar Elísabetar II.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.