Íslenski boltinn

„Eins og við verðum að hafa eitthvað undir til að spila vel“

Andri Már Eggertsson skrifar
Gunnar Magnús var svekktur með tap dagsins.
Gunnar Magnús var svekktur með tap dagsins. vísir/vilhelm

Keflavík tapaði 1-2 gegn ÍBV. Þetta var fimmta tap Keflavíkur í röð á heimavelli og var Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, hundfúll með niðurstöðuna.

„Takk fyrir að minna mig á að þetta var fimmta tapið í röð á heimavelli. Ég er fyrst og fremst ósáttur með frammistöðuna. Það var ekki fyrr en það voru tuttugu mínútur eftir af leiknum þegar við sýndum smá lífsmark og það var vonbrigði. Heimavöllurinn hefur gefið allt of lítið og þetta var súrt,“ sagði Gunnar Magnús svekktur eftir leik.

Í síðasta leik Keflavíkur var staðan markalaus eftir fjörutíu mínútur en síðan fékk Keflavík á sig mark og strax annað í kjölfarið. Það nákvæmlega sama gerðist í dag.

„Þetta var endurtekning frá síðasta leik gegn Þór/KA þar sem það gerðist lítið og svo í lok fyrri hálfleiks fáum við á okkur tvö mörk. Við brotnuðum bara við að fá á okkur mark en á móti komum við til baka í dag og náðum að setja eitt. Það er eins og við þurfum að hafa eitthvað til að berjast fyrir. Bestu fréttir helgarinnar Var að við héldum sætinu í deildinni.“

Keflavík minnkaði muninn í síðari hálfleik en Gunnar hefði viljað sjá meiri ákefð í sínu liði til að jafna leikinn.

„Við fórum hærra á völlinn en ég hefði viljað þjarma betur að þeim og koma boltanum meira á hættusvæðið sem vantaði hjá okkur,“ sagði Gunnar að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.