Erlent

Boðar her­kvaðningu og hótar kjarn­orku­stríði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ef marka má erlenda miðla hefur Pútín hvatt „sjálfboðaliða“ í Donbas til að taka upp vopn gegn Úkraínumönnum.
Ef marka má erlenda miðla hefur Pútín hvatt „sjálfboðaliða“ í Donbas til að taka upp vopn gegn Úkraínumönnum. AP/Alexei Nikolsky

Vesturlönd hafa sýnt að þau vilja ekki frið milli Rússlands og Úkraínu, sagði Vladimir Pútín Rússlandsforseti í ávarpi sínu til rússnesku þjóðarinnar í morgun. Hann sagði Vesturlönd vilja tortíma Rússlandi og sakaði þau um að nota Úkraínumenn sem fallbyssufóður.

Forsetinn sagði nauðsynlegt að grípa til tafarlausra aðgerða til að vernda Rússa á hinum „frelsuðu svæðum“. Því hefði hann fyrirskipað varnarmálaráðuneytinu að grípa til herkvaðningar.

Að sögn varnarmálaráðherrans Sergey Shoigu nær herkvaðningin til um 300.000 varaliða og einstaklinga sem áður hafa þjónað í hernum.

Pútín sakaði Vesturlönd um tilraunir til að kúga Rússa en sagði þá búa yfir fjölda vopna til að bregðast við. 

„Við munum nota öll þau ráð sem við eigum til að vernda fólkið okkar,“ sagði hann og virðist enn og aftur vera að vísa til notkunar kjarnorkuvopna.

„Ég treysti á stuðning ykkar,“ biðlaði hann til rússnesku þjóðarinnar.

Samkvæmt BBC sagði Pútín að þeir yrðu aðeins kallaðir til sem hefðu áður þjónað í hernum, „til að vernda móðurlandið, sjálfræði þess og landsvæði; öryggi þjóðarinnar“.

Þá hafði hann í hótunum við Vesturlönd.

„Ef landsvæði okkar er ógnað munum við grípa til allra ráða til að verja Rússland og þjóðina. Þetta er ekki innantóm hótun,“ sagði hann. „Til þeirra sem freista þess að hóta okkur með kjarnorkuvopnum; þeir ættu að vita að ráðandi vindar geta snúist og blásið í átt að þeim.“

Varðandi íbúakosningar um innlimun í Rússland á því sem hann kallaði „frelsuð svæði“ sagði hann Rússa „styðja þetta fólk“. Íbúar þar hefðu ekki áhuga á því að búa „undir oki nýnasista“.

Íbúakosningar um innlimun hafa verið tilkynntar í Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizhzhia.

Mykhailo Podolyak, einn ráðgjafa Vólódímír Selenskís Úkraínuforseta, hefur tjáð sig um ávarp Pútín og segir hann augljóslega vera að reyna að kenna Vesturlöndum um innrásina og versnandi stöðu efnahagsmála heima fyrir. Þá segir hann herkvaðninguna til marks um það hversu illa Rússum hefur gengið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.