Íslenski boltinn

Lá sárþjáð en fékk engar börur: „Takið mig út af“

Sindri Sverrisson skrifar
Hannah Tillett lá á vellinum í tæpar fjórar mínútur eftir að hún meiddist en þá var ekki enn búið að finna til sjúkrabörur fyrir hana.
Hannah Tillett lá á vellinum í tæpar fjórar mínútur eftir að hún meiddist en þá var ekki enn búið að finna til sjúkrabörur fyrir hana. Skjáskot/Stöð 2 Sport

Hannah Tillett lá sárþjáð á grasinu á Meistaravöllum, heimavelli KR-inga, í tæpar fjórar mínútur í gær áður en liðsfélagar hennar héldu á henni af vellinum. Vonir standa til þess að hún hafi ekki slitið krossband í hné.

Eins og fjallað var um á Vísi í morgun hafa bæði fyrirliði og þjálfari KR gagnrýnt umgjörðina í kringum kvennalið KR í fótbolta sem kristallaðist í því að engar sjúkrabörur voru til taks á leiknum við Selfoss í Bestu deildinni í gær.

Eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan lá Tillett í tæpar fjórar mínútur þrátt fyrir að hafa strax gefið skýrt til kynna að hún vildi komast af vellinum. „Takið mig út af, takið mig út af, takið mig út af,“ sagði Tillett.

Klippa: Lá lengi meidd á Meistaravöllum

„Hey dómari, hún er að drepast,“ heyrðist kallað af hliðarlínunni, líklega frá Birni Sigurbjörnssyni þjálfara Selfoss, og öllum var því ljóst að Tillett hefði lokið leik og þyrfti í læknisskoðun, sem hún fékk svo um kvöldið. Kallað var eftir börum en enginn svaraði kallinu.

Arnar Páll Garðarsson, annar þjálfara KR, sagðist í samtali við Vísi í dag ekki enn hafa fengið upplýsingar um líðan Tillett en að móðir hennar, sem sé læknir, hafi verið á meðal áhorfenda og talið að ekki væri um krossbandsslit að ræða. Sjúkraþjálfari KR hafi ekki getað metið meiðslin strax um kvöldið.

„Kvennafótbolti skiptir engu máli í KR“

Kollegi Arnars, Christopher Harrington, heyrist í myndbandinu hér að ofan fussa og sveia yfir því hvernig haldið sé utan um kvennalið KR. 

„Kvennafótbolti skiptir engu máli í KR. Þess vegna eru engar börur til taks úti á velli. Í alvöru talað,“ sagði Harrington en því fer fjarri að um fyrsta dæmið í sumar sé að ræða þar sem að umgjörðinni er ábótavant hjá kvennaliði KR á Meistaravöllum.

Stelpur í þriðja flokki eigi að halda á börunum

Arnar segir að það sé alla jafna í höndum stelpna í 3. flokki hjá KR að sjá um þau sjálfboðaliðastörf sem þurfi að sinna á heimaleikjum KR, og að ekki hafi fengist stelpur til að vera með sjúkrabörurnar í gær. Hann teldi betra að fullorðið fólk sæi um það en enn verra sé þó að börurnar hafi ekki einu sinni verið til staðar á vellinum.

„Þetta er leiðinlegt og lítur illa út, og er auðvitað bara verst fyrir leikmanninn sjálfan,“ sagði Arnar Páll. Vísir hefur ekki náð tali af Tillett sjálfri í dag en hver voru viðbrögð hennar í gær?

„Hún var svo sárþjáð fyrst og fremst, og svo var hún örugglega líka í miklu sjokki. Hún fór ekki upp á spítala fyrr en nokkrum mínútum eftir að leiknum lauk,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.