Umfjöllun og viðtöl: KR-Sel­foss 3-5 | Gestirnir felldu heima­konur

Jón Már Ferro skrifar
Selfoss sendi KR niður í Lengjudeildina.
Selfoss sendi KR niður í Lengjudeildina. Vísir/Hulda Margrét

KR er fallið niður í Lengjudeild eftir tap gegn Selfossi í Bestu deildinni í dag. Lokatölur í miklum marka leik 5-3 gestunum í vil. Umfjöllun og viðtöl væntanleg.

Strax á 15.mínútu skoraði Íris Una Þórðardóttir. Miranda Nild tók hornspyrnu frá hægri inn á teiginn með hægri fæti. Brenna Lovera skallaði boltann í baráttu við varnarmann KR. Boltinn skoppaði fyrir fætur Írísar Unu sem gat ekki annað en sett boltann yfir marklínuna.

Einni mínútu síðar svaraði KR með marki frá Guðmundu Brynju. Lilja Lív fékk boltann úti á hægri kanti eftir flott samspil KR-inga. Lilja sendi boltann fyrir markið. Á nærstöngina mætti Guðmunda Brynja eins og sannur markaskorari. Sif Atladóttir tæklaði fyrir skot Gumundu en boltinn skrúfaðist af henni og yfir Tiffany Sornpao í marki Selfoss.

Á 36.mínútu komust Selfyssingar aftur yfir með marki frá Miröndu Nild. Barbara Sól fékk boltann fyrir utan teig KR örlítið hægra megin. Hún sendi skoppandi bolta inn á teiginn þar sem boltinn hrökk af Guðrúnu Dóru í baráttu við Telma Steindórssdóttur, varnarmann KR. Boltinn hrökk aftur fyrir þær til Miröndu sem stóð ein og óvölduð fyrir framan Corneliu í markinu. Miranda kláraði með skoti niður í vinstra hornið úr miðjum teignum.

KR svarði snemma í seinni hálfleik með marki frá Marcellu Barberic. Tiffany, markmaður Selfoss, fékk boltann til baka frá Sif Atladóttur, Tiffany ætlaði að senda boltann á Áslaugu Dóru sem stóð nokkrum metrum frá henni. Eitthvað var Tiffany utan við sig vegna þess að hún hitti boltann alls ekki. Marcella tók boltann af henni og þakkaði fyrir sig með að renna boltanum í markið.

Það var svo á 56.mínútu sem Íris Una bætti við þriðja marki gestanna og öðru marki sínu eftir hornspyrnu. Boltinn datt fyrir Írisi eftir að KR-ingar náðu ekki að hreinsa. Íris þrumaði boltann í slánna og inn.

Miranda Nild bætti svo við öðru marki sínu og fjórða marki Selfoss. Hún fékk boltann fyrir utan teig, vinstra meginn, tók góðan snúning framhjá Marcellu sem rann til. Miranda lagði boltann að lokum fyrir sig og tók skot niður í hornið hægra meginn, Cornelia var í boltanum en hann lak inn.

Þegar um 10.mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma bætti Katla María við fimmta marki gestanna. Selfoss vann boltann á eigin vallarhelming. Áslaug Dóra sendi boltann út á Bergrósu sem var með nægt pláss á hægri kantinum. Hún rak boltann upp að endamörkum, skar boltann út í teiginn á Kötlu Maríu sem tók fast skot yfir Corneliu í marki KR.

KR-ingar skoruðu sárabótarmark í uppbótartíma þegar Rasamee skoraði úr víti sem hún fiskaði sjálf. Embla Dís braut klaufalega af sér innan teigs.

Af hverju vann Selfoss?

Selfoss nýtti sóknir sínar betur en heimakonur. Varnarleikur beggja liða var ekki upp á marga fiska í mörkunum en þó betri hjá Selfyssingum.

Hverjar stóðu upp úr?

Miranda Nild og Íris Una skoruðu báðar tvö mörk, það er erfitt að horfa framhjá því. Það voru þó nokkrar í liði Selfoss sem voru sprækar fram á við.

Hvað gekk illa?

KR-ingum gekk illa að verjast á þeim augnablikum sem Selfoss skoraði. Þær hefðu þurft að vera ákveðnari í að hreinsa boltann í burtu.

Hvað gerist næst?

KR fer í Laugardalinn og mætir þar Þrótti Reykjavík þann 25.september klukkan 14:00. Á sama tíma fær Selfoss, Breiðablik í heimsókn.

Bára: Gríðarlega spennt að sjá hvar við stöndum þegar við mætum Breiðablik og Val

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir er aðstoðarþjálfari Selfoss.vísir/stöð 2 sport

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, aðstoðarþjálfari Selfoss, var ánægð með sigurinn.

„Við höfum alveg spilað fallegri fótboltaleiki en þennan, en ég meina fimm mörk og þrjú stig.“

Hún sagði einnig að ástæða þess að þær unnu leikinn var færanýting þeirra. Að sama skapi var hún ekki ánægð með varnarleikinn.

„Við nýttum allavega eitthvað af föstu leikatriðunum okkar. Annars vorum við að skapa eitthvað af góðum færum. Við gáfum þeim eitt mark, skoruðum eitt sjálfsmark og svo víti í lokin. Þetta er bara svolítið sloppy hjá okkur.“

Í síðustu tveimur umferðum deildarinnar mæta hennar stelpur toppliði Vals og Breiðablik sem eru í öðru sæti.

„Ég er bara gríðarlega spennt að sjá hvar við stöndum þegar við mætum Breiðablik og Val í síðustu tveimur umferðunum,“ sagði Bára að lokum.

Cristopher: Ákveðnir hlutir í kringum kvennalið KR þurfa að breytast

Cristopher Harrington (t.h.) er ekki sáttur með umgjörðina í kringum KR-liðið.Vísir/Hulda Margrét

Christopher Harrington, annar af þjálfurum KR, var ekki sáttur eftir leikinn. Hann sagði umgjörðina í kringum liðið þurfi að breytast, aðspurður hvort hann vilji halda áfram með liðið sagði hann: „Það fer eftir ýmsu. Liðið hefur verið frábært frá því að ég tók við, stelpurnar hafa verið stórkoslegar. Miðað við aðstæðurnar sem þær hafa lent í. Ákveðnir hlutir í kringum kvennalið KR þurfa að breytast.“

Hann útskýrði nánar hvaða hlutir það væru.

„Allir litlu hlutirnir, eins og í dag voru engar sjúkrabörur fyrir meiddan leikmann. Ef þetta væri í karla bolta, þá væri þetta ekki neitt mál. Það eru ýmsir litlir hlutir sem að í kvenna bolta skipta miklu máli. Ef þú lætur konur líða eins og þær skipti máli og að þær finni fyrir virðingu þá skilar það sér á vellinum. Aðstæðurnar sem okkar stelpur eru í og miðað við það sem þær gefa á vellinum, vitandi það sem ég veit, þá er frábært að sjá það sem þær gera. Þær skora þrjú mörk á móti Selfossi. Það dugir ekki til að vinna leikinn en þær gáfu allt og að lokum finn ég til með þeim því þær eiga skilið meira frá félaginu,“ sagði Christopher að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira