Enski boltinn

Jesse Marsch dæmdur í bann og sektaður um eina og hálfa milljón

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jesse Marsch lét vel í sér heyra á hliðarlínunni. Kannski fullvel.
Jesse Marsch lét vel í sér heyra á hliðarlínunni. Kannski fullvel. Steve Bardens/Getty Images

Jesse Marsch, knattspyrnustjóri Leeds United, verður ekki á hliðarlínunni í næsta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Marsch var dæmdur í eins leiks bann fyrir hegðun sína í 5-2 tapi liðsins gegn Brentford þann 3. september síðastliðinn.

Bandaríkjamaðurinn var vægast sagt ósáttur í leiknum þegar honum þótti lið sitt eiga að fá vítaspyrnu. Marsch lét Robert Jones, dómara leiksins, heyra það og bað hann ítrekað um að kíkja í VAR-skjáinn góða til að skoða atvikið. Stjóranum þótti þá Aaron Hicke brjóta á vængmanni Leeds, Crysencio Summerville, innan vítateigs.

Marsch verður því í banni í næsta deildarleik Leeds sem er gegn Aston Villa þann 2. október næstkomandi. Liðið átti að mæta Manchester United næstkomandi sunnudag, en vegna andláts Elísabetar II Bretlandsdrottningar hefur þeim leik verið frestað.

Ekki nóg með það að Marsch þurfi að fá sér sæti upp í stúku í næsta deildarleik Leeds, heldur þarf þjálfarinn einnig að opna veskið fyrir brot sitt. Enska knattspyrnusambandið hefur sektað þjálfarann um 10.000 pund sem sasvarar rúmlega einni og hálfri milljón íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×