Umfjöllun og viðtöl: Þróttur 2-3 Keflavík | Keflvíkingar sóttu þrjú dýrmæt stig í Laugardalinn

Atli Arason skrifar
Keflavíkingar fagna marki.
Keflavíkingar fagna marki. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík vann sterkan sigur á Þrótti Reykjavík í Bestu deild kvenna í kvöld. Lokatölur 2-3 gestunum í vil og fer það langt með að tryggja sæti Keflvíkinga í deildinni. Á sama tíma varð Þróttur af dýrmætum stigum í baráttunni um Evrópusæti.

Þróttarar byrjuðu leikinn betur og voru meira með boltann fyrstu mínúturnar. Boltinn gekk vel leikmanna á milli og fyrstu marktækifæri leiksins féllu fyrir heimakonur. Þeim tókst þó ekki að nýta sér yfirburði í upphafi leiks þar sem það voru Keflvíkingar sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 16. mínútu þegar Aníta Lind Daníelsdóttir vinnur boltann við miðlínuna og keyrir upp völlinn áður en hún átti skot í fjærhornið á marki Þróttar. Afar laglegt einstaklingsframtak hjá Anítu.

Þróttarar tóku við sér á ný eftir markið og áttu nokkur hættuleg færi áður en Keflvíkingar refsuðu aftur. Amelía Rún Fjelsted setti þá boltann í mark Þróttar eftir samleik við Ana Santos rétt fyrir hálfleik og Keflvíkingar leiddu með tveimur mörkum í leikhlé.

Síðari hálfleikur var ekki meira en fjögurra mínútna gamall þegar Ólöf Sigríður Kristinsdóttir minnkaði muninn fyrir Þrótt. Ólöf náði þá að setja knöttinn í netið eftir undirbúning frá Andreu Rut Bjarnadóttur.

Þróttarar virtust þó sofna á verðinum eftir markið því Keflvíkingar komust strax aftur í tveggja marka forystu. Markið skoruðu þær nánast beint úr miðjunni eftir mark Þróttar en Snædís María Jörundsdóttir skoraði þá sitt fyrsta mark í treyju Keflavíkur. Dröfn Einarsdóttir keyrði upp hægri vænginn, boltinn endaði hjá Ana Santos sem á skot á markið sem Íris Dögg í marki Þróttar ver en við það dettur boltinn fyrir lappir Snædísar sem kom Keflavík í 1-3.

Keflvíkingar voru nálægt því að bæta við fjórða markinu skömmu seinna en það sem eftir lifði leiks voru Þróttarar með yfirhöndina. Heimakonur þjarma að gestunum sem verður að lokum að því að Andrea Rut Bjarnadóttir minnkar muninn niður í eitt mark á 90 mínútu en nær komust Þróttarar ekki og lokatölur því 2-3 fyrir Keflavík.

Afhverju vann Keflavík?

Þéttur varnarleikur ásamt afar hröðum og árangursríkum skyndisóknum.

Hverjar stóðu upp úr?

Caroline Slambrouck og Kristrún Ýr voru frábærar saman í miðri vörn Keflavíkur í kvöld.

Hvað gekk illa?

Framlína Þróttar sofnar sennilega seint í nótt þegar þær hugsa um öll færin sem fóru forgörðum.

Hvað gerist næst?

Keflavík fær Þór/KA í heimsókn næsta sunnudag í mikilvægum leik á milli liðanna sem eru rétt fyrir ofan fallsvæðið. Degi síðar fer Þróttur í heimsókn til Stjörnunnar í Garðabænum.

„Allir leikir stórir núna“

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur.vísir/vilhelm

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, gat leyft sér að brosa fyrir leik, á meðan leik stóð og eftir leikslok.

„Fyrir leik var ég kátur og glaður að fá loksins að spila fótboltaleik, eftir leik er ég enn þá glaðari. Geggjuð frammistaða hjá stelpunum og ég er mjög stoltur af þeim,“ sagði Gunnar í viðtali við Vísi eftir leik.

„Við settum upp ákveðið skipulag og það hélt vel í bland við vinnusemi og dugnað frá stelpunum en þær fleygðu sér fyrir alla bolta. Við vorum að spila gegn mjög góðu liði, Þróttarar eru með vel "drillað" lið og virkilega öflugar stelpur. Við þurftum að hafa fyrir því að halda aftur af þeim og gerðum það vel.“

Keflvíkingar voru hættulegar á skyndisóknunum og nýttu færin sín afar vel en leikurinn í kvöld var sá fyrsti frá því í fyrstu umferð sem Keflavík skorar þrjú mörk í einum og sama leik.

„Það er annað sem hefur vantað upp á hjá okkur í sumar, við vorum stórhættulegar fram á við þegar við sóttum hratt og sérstaklega í fyrri hálfleik í dag,“ sagði Gunnar áður en hann bætti við.

„Sóknarleikurinn hefur verið brösóttur hjá okkur en við gerðum þetta vel í dag og framkvæmdum þessar hröðu sóknir vel.“

Næsti leikur Keflavíkur er gegn Þór/KA næsta sunnudag. Sigur Keflavíkur í þeim leik myndi fara langleiðina á því að tryggja liðinu sæti í Bestu-deildinni á næsta tímabili.

„Við höldum áfram og núna er kominn tími á smá áskorun á stelpurnar, að við tengjum saman tvo leiki. Við áttum frábæran leik á móti Aftureldingu um daginn en skitum svo upp á bak í næsta leik á eftir. Núna er áskorun að fylgja á eftir góðum sigri en það eru allir leikir stórir núna. Mótið er ekki búið og við þurfum að klára það þangað til þetta er orðið tryggt,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur.

„Evrópa er farin“

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar.Diego

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, gat ekki tekið saman mikið jákvætt úr leik sinna leikmanna í 2-3 tapinu gegn Keflavík á heimavelli í dag.

„Á þessu stigi tímabilsins þá skiptir það engu máli. Bæði mörkin sem við skoruðum voru góð en það skiptir engu máli í tapi. Við höfðum möguleika á fjórum bikarúrslitaleikjum í síðustu umferðunum og mögulega koma okkur inn í Evrópu en það er alveg búið núna. Við verðum bara að reyna að enda tímabilið okkar vel núna, miða að því að fá fleiri stig en á síðasta ári,“ sagði Chamberlain, áður en hann bætti við.

„Evrópa er farinn. Við getum enn þá unnið síðustu þrjá leikina en Breiðablik þarf þá missa stig og Stjarnan líka. Ég sé ekki Breiðablik fara að missa stig í síðustu þremur leikjunum.“

Chamberlain var óánægður með frammistöðu sinna leikmanna í dag.

„Það var óásættanlegt hvernig við brugðumst við því sem Keflavík bauð upp á í þessum leik. Stórt hrós á þær því við vissum nákvæmlega hvert leikplanið þeirra var en þær framkvæmdu það vel og tóku þau færi sem gáfust þeim á meðan við gerðum það ekki,“ sagði Nik áður en hann bætti við.

„Í hálfleik sagði ég við stelpurnar að þetta væri leikur sem við gætum enn þá komist í og sigrað. Við náðum snemma að koma inn marki en svo svöruðu þær strax til baka eftir miðjuna og það drap okkur alveg.“

Leikplan Keflavíkur snerist um skyndisóknir sem Nik taldi sig vita fyrir fram. Chamberlain var spurður hvers vegna Þróttur fékk á sig þrjú mörk þrátt fyrir að vita leikplan Keflavíkur.

„Við brugðumst ekki nógu vel við. Við vissum að þær myndu sækja á skyndisóknum og við tókumst ekki nógu vel á við skyndisóknirnar þeirra þrátt fyrir að við höfðum æft það sérstaklega,“ svaraði Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira