Erlent

Rússneskar hersveitir hörfa frá borgum í Austur-Úkraínu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Úkraínskir hermenn í Kupyansk í Luhansk í morgun.
Úkraínskir hermenn í Kupyansk í Luhansk í morgun. Twitter/WarMonitor

Svo virðist sem rússneskar hersveitir hafi yfirgefið fjölda borga í austurhluta Úkraínu. Stjórn aðskilnaðarsinna í Kharkív hefur hvatt íbúa til að flýja heimili sín en hefur heitið því að „frelsa héraðið undan oki Úkraínu“ að nýju.

Í morgun fóru að hrannast inn færslur á samfélagsmiðlum þess efnis að úkraínski herinn hefði náð stjórn á borgum í austurhluta Úkraínu, svo sem Kupyansk. Héraðið hefur verið undir stjórn Rússa eiginlega alveg síðan þeir réðust inn í landið í lok febrúar síðastliðnum og þar áður undir stjórn aðskilnaðarsinna. 

Haft er eftir Vitaly Ganchev, leiðtoga aðskilnaðarsinna í Kharkív, í frétt rússneska ríkismiðilsins RIA um málið að íbúar í héraðinu eigi að flýja vegna framgöngu úkraínska hersins. Búið sé að tilkynna Rússlandi að næstu daga muni straumur flóttamanna aukast og að yfirvöld í Rússlandi séu tilbúin að taka á móti þeim. 

„Því miður gerir óvinurinn fleiri og fleiri tilraunir til þess að eyða borgum okkar og bæjum. Eins og staðan er núna get ég ekki leyft almennum borgurum að deyja þannig að ég hvet þá til að yfirgefa átakasvæðið,“ sagði Ganchev í myndbandi sem var birt á Telegram.

Að hans sögn verða þeir bæir sem úkraínski herinn herjar á verða frrelsaðir undan oki Úkraínu. Fyrst þurfi hins vegar að huga að lífi og heilsu íbúanna. 

Fram kemur í tísti frá Doge að úkraínski herinn hafi náð að stöðva birgðalestir á leið til borgarinnar Izyum í Luhansk. Það sé stór ástæða þess að rússneski herinn hafi hörfað þaðan. Doge vísar í tístinu til færslu rússnesku telegramrásarinnar Readovka að rússneski herinn hafi ákveðið að hörfa frá Izyum vegna taktískra ástæðna. 

Fyrirsögn fréttarinnar var breytt klukkan 11:20.


Tengdar fréttir

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Komnir langt í gegnum varnir Rússa í Kharkív

Hersveitir Úkraínu hafa sótt töluvert fram gegn Rússum Kharkív-héraði í norðurhluta Úkraínu á undanförnum dögum. Það gerðu þær með skyndisókn sem virðist hafa komið Rússum á óvart og Úkraínumenn hafi nýtt sér það að Rússar fluttu hersveitir til suðurs til að bregðast við sókn Úkraínumanna í Kherson-héraði.

Ekki líðandi að Zaporizhzhia kjarnorkuverinu sé ógnað

Forstjóri Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar segir ekki líðandi að öryggi kjarnorkuversins í Zaporizhzhia haldi áfram að vera ógnað af stríðandi fylkingum í Úkraínu. Eftirlitsmenn stofnunarinnar væru komnir til að vera í kjarnorkuverinu sem er það stærsta í Evrópu og hefur þegar verið ógnað með sprengjuárásum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×