Enski boltinn

Gerði allt vitlaust með að segja að svart fólk ætti ekki að syrgja drottninguna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trevor Sinclair fékk á baukinn fyrir ummæli sín um Elísabetu Bretadrottningu.
Trevor Sinclair fékk á baukinn fyrir ummæli sín um Elísabetu Bretadrottningu. getty/Catherine Ivill

Trevor Sinclair, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í fótbolta, var harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín um að fólk sem er dökkt á hörund ætti ekki að syrgja Elísabetu II Bretadrottningu sem féll frá í gær, 96 ára að aldri.

Að mati Sinclairs leyfði Elísabet kynþáttafordómum að grassera á valdatíð sinni. Hún var krýnd í embætti 1952 og var því þjóðhöfðingi Bretlands í sjötíu ár, lengur en nokkur annar.

„Rasismi var gerður útlægur í Englandi á 7. áratugnum og hefur verið leyft að viðgangast svo af hverju ætti fólk sem er dökkt á hörund að syrgja,“ skrifaði Sinclair á Twitter.

Ummæli Sinclairs mæltust ekkert sérstaklega vel fyrir og hann var harðlega gagnrýndur, meðal annars af kollegum sínum á talkSPORT þeim Simon Jordan og Georgie Bingham.

Ekki nóg með það heldur hefur talkSPORT fordæmt ummæli Sinclairs, sagst ætla að rannsaka málið og ræða við hann.

Sinclair, sem er 49 ára, lék tólf landsleiki fyrir England á árunum 2001-03, þar af fjóra á HM 2002. Hann var fimm ár hjá QPR og West Ham United og fjögur ár hjá Manchester City. Sinclair lagði skóna á hilluna 2008.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.