Íslenski boltinn

Þakkar fyrir ógleymanlegan stuðning eftir útreiðina í Víkinni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sigurður Heiðar var ánægður með stuðninginn í 9-0 tapi gærkvöldsins.
Sigurður Heiðar var ánægður með stuðninginn í 9-0 tapi gærkvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis í Reykjavík, setti inn færslu á samfélagsmiðilinn Twitter í morgun eftir 9-0 tap liðs hans fyrir Íslands- og bikarmeisturum Víkings í Bestu deild karla í gærkvöld. Hann þakkar fyrir stuðning úr stúkunni við svo erfiðar aðstæður.

Leiknir sá aldrei til sólar í leik gærkvöldsins en Daniel Djuric skoraði lokamark Víkinga þegar stundarfjórðungur var enn til leiksloka. Stærð tapsins er jöfnun á meti úr efstu deild en Víkingur var á meðal liða sem átti fyrra met, með 10-1 tapi fyrir ÍA árið 1993.

Í viðtali eftir leik sagðist Sigurður stoltur af sínu liði og að stærri lið en Leiknir hefðu tapað svo stórt í efstu deild. Jafnframt komst hann ekki hjá því að finnast svo stórt tap sárt og það sviði.

Stuðningsmenn Leiknis í Víkinni í gærkvöld létu ekki deigan síga þrátt fyrir agalega stöðu liðs þeirra á vellinum og sungu stuðningssöngva til leiksloka. Sigurður segir að hann muni aldrei gleyma því.

„Mun aldrei gleyma stuðningnum í stúkunni í gær fram að lokaflauti. Leiknishjartað er stórt en það stækkaði um helming í gær. Takk #ghettoboys og allt Leiknisfólk. Við munum gefa allt sem við eigum það sem eftir er. Markmiðið er skýrt.“ segir Sigurður Heiðar á Twitter.

Markatala Leiknis varð töluvert slakari í samanburði við liðin sem Breiðhyltingar berjast við um fallið en alls eru sjö umferðir eftir af deildinni. Tvær í hefðbundinni deildarkeppni og svo fimm leikir við hin fimm liðin sem enda í neðri helmingi deildarinnar.

Leiknir er með 14 stig á botni deildarinnar, einu stigi frá ÍA sem er sæti ofar og tveimur frá FH sem er í neðsta örugga sætinu með 16 stig. ÍBV er með 19 stig í níunda sæti.

Leiknir er eftir tap gærkvöldsins með 30 mörk í mínus, samanborið við 23 mörk Skagamanna í mínus og tólf mörk FH-inga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×