Enski boltinn

Ronaldo var upphafið af deilum Tuchel og Boehly

Atli Arason skrifar
Thomas Tuchel, Cristiano Ronaldo og Todd Boehly.
Thomas Tuchel, Cristiano Ronaldo og Todd Boehly. Getty Images / Samsett

Thomas Tuchel var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Chelsea í gær. Samband Tuchel við Todd Boehly, eiganda Chelsea, hafði verið slæmt í allt sumar en upphaf þess má rekja til hugsanlegra félagaskipta Cristiano Ronaldo frá Manchester United til Chelsea.

Boehly vildi ólmur fá Cristiano Ronaldo til Chelsea þegar Portúgalinn vildi yfirgefa Manchester United fyrr í sumar. Tuchel vildi þó ekki sjá Ronaldo í sínu liði en hann taldi að framherjinn myndi valda óstöðugleika í búningsherbergi Chelsea

Tuchel vildi frekar fá Pierre-Emerick Aubameyang til félagsins frá Barcelona. Tuchel fékk að endingu ráða en Aubameyang kom til Chelsea á lokadegi félagaskiptagluggans. Aubameyang spilaði sinn fyrsta leik fyrir Chelsea á þriðjudaginn í 1-0 tapinu gegn Dinamo Zagreb í Meistaradeildinni, sem varð einnig síðasti leikur Tuchel hjá Chelsea.

Breska blaðið Telegraph greinir frá því að Tuchel var orðinn verulega þreyttur á því að þurfa að rökstyðja fyrir Boehly hvers vegna hann vildi alls ekki fá Ronaldo til liðsins. Á sama tíma var Boehly að funda með umboðsmanni Ronaldo, Jorge Mendes, með hugsanleg félagaskipti í huga

Ekki hjálpaði það til að Tuchel vildi losna við Armando Broja. Tuchel taldi leikmanninn ekki vera tilbúinn að spila fyrir Chelsea. West Ham gerði tilboð í Broja upp á 30 milljónir punda en Chelsea hafnaði því og gaf Broja þess í stað nýjan sex ára samning. Um leið myndaðist pressa á Tuchel að nota Broja í leikmannahópnum.

Eru þessar deilur um Ronaldo þó upphafið af ósætti á milli Tuchel og Boehly en sá síðarnefndi var sagður vera búinn að gera upp hug sinn um að reka Tuchel, fyrir tapið gegn Zagreb á þriðjudag. Tuchel hafði að undanförnu verið duglegur að gagnrýna leikmenn Chelsea og félagaskipti liðsins.

Næsti leikur Chelsea er gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni næsta laugardag en Chelsea vonast til þess að vera búið að ráða nýjan knattspyrnustjóra fyrir þann leik.


Tengdar fréttir

Tuchel rekinn eftir tap gærkvöldsins

Thomas Tuchel hefur verið vísað úr starfi knattspyrnustjóra hjá Chelsea í kjölfar taps liðsins fyrir Dinamo Zagreb í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld.

Tuchel vill fleiri leikmenn

Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, var ánægður að hefja leiktíðina í ensku úrvalsdeildinni á sigri. Hann segist þó vilja bæta við hóp sinn.

„Okkur skorti hungur og á­kafa“

Meistaradeild Evrópu hófst á nýjan leik á þriðjudag. Það var mikið um dýrðir og nokkuð um óvænt úrslit. Þau óvæntustu komu í Króatíu þar sem Dinamo Zagreb skellti Chelsea, lokatölur 1-0.

Aubameyang genginn í raðir Chelsea

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur gengið frá kaupum á framherjanum Pierre-Emerick Aubameyang frá spænska stórveldinu Barcelona.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.