Erlent

Voru um borð í vélinni sem fórst í Eystra­salti

Atli Ísleifsson skrifar
Peter Griesemann og eiginkona hans Juliane voru í hópi þeirra sem voru um borð í vélinni.
Peter Griesemann og eiginkona hans Juliane voru í hópi þeirra sem voru um borð í vélinni. Blauen-Funken

Þýski frumkvöðullinn Peter Griesemann, eiginkona hans Juliane og dóttir þeirra Lisa, auk annars karlmanns, voru um borð í einkaflugvélinni sem hrapaði á lettnesku hafsvæði í Eystrasalti í gærkvöldi.

Þetta staðfesta vinir fjölskyldunnar í samtali við þýska blaðið Express. Búið er að finna brak úr vélinni, en ekki þau sem voru um borð.

Hinum 72 ára Griesemann er lýst sem „ástríðufullum flugmanni“ og var hann eigandi fyrirtækisins Quick Air sem sérhæfði sig í rekstri smærri einkaflugvéla. Hann er auk þess heiðursformaður Köln-karneval Blauen Funken og stjórnarformaður byggingafélagsins Sachsenturm.

Griesemann á sjálfur að hafa flogið vélinni sem tók á loft frá Jerez á suðurhluta Spánar þar sem fjölskyldan á hús. Ekki var óalgengt að fjölskyldan flygi milli Jerez og Kölnar þar sem höfuðstöðvar flugfélagsins er að finna.

Flugvélin var af gerðinni Cessna Citation 551, en brak úr vélinni hefur fundist í sjónum norðvestur af lettnesku hafnarborginni Ventspils.

Juliane, eiginkona er 68 ára, dóttirin Lisa 26 ára og hinn karlmaðurinn um borð 27 ára.

Erlendir fjölmiðlar segja að flugmaðurinn hafi tilkynnt um vandræði með loftþrýstinginn í vélinni skömmu eftir flugtak á Spáni. Talsamband hafi rofnað skömmu eftir að flogið var inn í franska lofthelgi og hafi flugið verið óstöðugt á köflum og var beygt í tvígang, nærri París í Frakklandi annars vegar og svo aftur nærri Köln í Þýskalandi. Vélinni hafi svo verið flogið yfir Eystrasalt og svo loks hrapað undan ströndum Lettlands.


Tengdar fréttir

Einka­þota hrapaði í Eystra­salt

Talið er að lítil einkaþota með fjóra innanborðs hafi hrapað í Eystrasalt við Lettland. Samkvæmt flugáætlun var vélin á leið frá Spáni til Kölnar í Þýskalandi. Þegar vélin var flogin fram hjá Köln reyndu flugumferðarstjórar að ná sambandi við flugmenn hennar án árangurs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×