Erlent

Átta fjall­göngu­menn látnir á eld­fjalli á Kamtsjaka

Atli Ísleifsson skrifar
Mjög kalt er á svæðinu og getur kuldinn farið niður í fjórtán stiga frost á nóttunni. Myndin er úr safni.
Mjög kalt er á svæðinu og getur kuldinn farið niður í fjórtán stiga frost á nóttunni. Myndin er úr safni. Getty

Átta fjallgöngumenn eru látnir eftir að hafa reynt að klífa eldfjallið Klyutsjevskaja Sopka á Kamtsjaka-skaga, austast í Rússlandi, um helgina.

Fjórir fjallgöngumenn til viðbótar eru sagðir vera í sjálfheldu á fjallinu og hafa gríðarlegir vindar og kuldi torveldað björgunarstörf.

Tveir leiðsögumenn voru hluti af hinum tólf manna hópi sem reyndi að klífa fjallið sem er um 4.754 metrar á hæð og hæsta, virka eldfjall Evrasíu.

Hópurinn lagði af stað á þriðjudag, en lenti í vandræðum á laugardag þegar nokkrir úr hópnum hröpuðu til bana í um 4.200 metra hæð.

Björgunarlið gerði tilraun til að ná til hópsins í gær en varð frá að hverfa þar sem of vindasamt var fyrir björgunarþyrluna að lenda. Reiknað er með að önnur tilraun verði gerð til að ná til hópsins í dag.

Mjög kalt er á svæðinu og getur kuldinn farið niður í fjórtán stiga frost á nóttunni, að því er segir í frétt Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×