Innlent

Sameinast um að fægja og lífga upp á falda perlu á Blönduósi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, í beinni útsendingu frá Blönduósi með gamla bæjarkjarnann í baksýn.
Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, í beinni útsendingu frá Blönduósi með gamla bæjarkjarnann í baksýn. Sigurjón Ólason

Sveitarstjórn Húnabyggðar og fyrirtækið Info Capital hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu gamla bæjarkjarnans á Blönduósi. Gömlu götumyndinni er lýst sem einstakri perlu sem ætlunin er að fægja og lífga upp á.

Fjallað var málið í beinni útsendingu Stöðvar 2 frá Blönduósi þar sem sjá mátti yfir þennan elsta hluta byggðarinnar. Þar á vesturbakkanum við ós Blöndu byrjaði þorpið að byggjast upp fyrir nærri 150 árum. Þar má enn finna tólf hús sem eru yfir eitthundrað ára gömul. Það elsta, Hillebrandtshús, er talið reist árið 1877.

Í viljayfirýsingunni kemur fram að gamli bærinn hafi í eina tíð verið þungamiðja þjónustu með fjölbreyttu mannlífi. Þar í alfaraleið hafi mátt finna verslanir, samkomuhús, apótek, sjúkrahús, kirkju, banka, bakarí og hótel. Með færslu þjóðvegarins hafi þjónustan færst með og gamli bærinn staðið eftir sem nokkurs konar minnisvarði um liðna tíð.

„Og þar stendur hann enn að stóru leyti ósnortinn. Perla sem er falin þeim fjölmörgu ferðamönnum sem eiga leið um héraðið og býr yfir menningarlegum fjársjóði með óþrjótandi möguleikum fyrir heimafólk og ferðaþjónustu,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Gömul mynd frá Blönduósi, talin tekin í kringum árið 1930. Handan ár eru nokkur hús risin og Kvennaskólinn mest áberandi.Húnabyggð/Ljósmyndasafn Skagastrandar

„Info Capital eru gamlir heimamenn á Blönduósi, Reynir Grétarsson og Bjarni Gaukur Sigurðsson,“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, um samstarfsaðila sveitarfélagsins en fyrirtækið er búið að kaupa hótelið og fleiri hús á staðnum.

„Þeir eru búnir að kaupa hér húseignir, já, og ætla að taka þessa gömlu perlu hérna og fægja hana með okkur heimamönnum.

Hér viljum við hafa blómlegt menningar- og atvinnulíf. Atvinnulífið felst náttúrlega í því að hér verður gisting og veitingasala og bullandi menning,“ segir Guðmundur Haukur um áformin.

-Þetta kannski snýst fyrst og fremst um það að fá ferðafólk til að staldra lengur við, kaupa ekki bara eina pylsu í sjoppunni á Blönduósi?

„Klárlega. Klárlega. Hér er bara fullt af sögu sem þessi einstaka götumynd hefur að geyma. Og við erum að slípa til framtíðarsýnina á næstu vikum og svo förum við í uppbyggingu og gerum þetta flott,“ segir oddvitinn.

Meira í frétt Stöðvar 2:

Einnig var fjallað um gamla bæjarhlutann í þættinum Um land allt frá Blönduósi og frétt Stöðvar 2 fyrir þremur árum:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×