Man Utd fyrsta liðið til að leggja Arsenal að velli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rashford kemur Man Utd í forystu
Rashford kemur Man Utd í forystu vísir/Getty

Manchester United fékk Arsenal í heimsókn í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal var með fullt hús stiga á toppi deildarinnar þegar kom að leik dagsins og heimamenn mættu einnig fullir sjálfstrausts eftir þrjá sigurleiki í röð. 

Andrúmsloftið á Old Trafford ansi rafmagnað í upphafi leiks og vakti sérstaka athygli að Brasilíumaðurinn Antony var í byrjunarliði Man Utd en hann gekk til liðs við félagið í vikunni.

Gabriel Martinelli virtist hafa komið Arsenal í forystu snemma leiks þegar hann vippaði boltanum snyrtilega yfir David De Gea. Man Utd vildi fá dæmda aukaspyrnu í aðdraganda marksins og eftir að Paul Tierney, dómari leiksins, hafði skoðað atvikið sjálfur í VAR ákvað hann að dæma markið af.

Antony var ekki lengi að vinna sig inn í hug og hjörtu stuðningsmanna Man Utd því hann náði forystunni fyrir heimamenn á 35.mínútu eftir snarpa sókn og stoðsendingu frá Marcus Rashford.

Man Utd fór með eins marks forystu inn í leikhléið.

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, virðist hafa unnið vinnuna sína í hálfleiknum því Arsenal menn mættu virkilega sprækir til leiks í síðari hálfleik og það var verðskuldað að Bukayo Saka skyldi jafna metin á 60.mínútu.

Í kjölfarið kviknaði heldur betur á Man Utd og þeir svöruðu jöfnunarmarkinu með tveimur mörkum eftir skyndisóknir. Bæði mörkin skoruð af Marcus Rashford, hið fyrra á 66.mínútu og hið síðara á 75.mínútu.

Arsenal tókst ekki að svara fyrir sig og vann Man Utd 3-1 sigur.

Lærisveinar Mikel Arteta því ekki lengur taplausir en eru þrátt fyrir það á toppi deildarinnar með fimmtán stig. Man Utd í 5.sæti með tólf stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira