Demókratinn Mary Peltola hafði betur gegn Palin og er um viss tímamót að ræða, en þingmaður umrædds umdæmis hefur síðustu fimmtíu árin komið úr röðum Repúblikana.
Peltola er fyrsta þingmaður Alaska í fulltrúadeildinni sem er af frumbyggjaættum, en hún hefur áður starfað sem þingmaður á ríkisþingi Alaska.
Boðað var til aukakosninga um sætið eftir að þingmaður umdæmisins í fulltrúadeildinni, Repúblikaninn Don Young, lést í mars síðastliðinn. Aftur verður kosið um þingsætið í þingkosningunum sem fram fara 8. nóvember næstkomandi.
Palin var ríkisstjóri Alaska á árunum 2006 til 2009 og var valin til að verða varaforsetaefni Repúblikanans John McCain í forsetakosningunum 2008.
Erlendir fjölmiðlar lýstu í gærkvöldi hina 49 ára Peltola sigurvegara kosninganna, en hún hlaut 51,5 prósent atkvæða, en Palin 48,5 prósent.
Um er að ræða mikinn ósigur fyrir Palin sem hefur lengi stefnt á endurkomu í bandarískum stjórnmálum, en Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var einn þeirra sem hafði lýst yfir stuðningi við Palin.
Peltola ræddi í kosningabaráttunni mikið um rétt kvenna til þungunarrofs, nauðsyn þess að bregðast við loftslagsbreytingum og ástand laxastofnsins í ríkinu.