Enski boltinn

Nóg um að vera á skrif­stofu Sout­hampton

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ainsley Maitland-Niles er á leiðinni til Southampton.
Ainsley Maitland-Niles er á leiðinni til Southampton. David Price/Getty Images

Þó svo að enska úrvalsdeildarfélagið Southampton hafi unnið góðan 2-1 sigur á Chelsea um liðna helgi þá ætlar liðið heldur betur að styrkja sig áður en félagaskiptaglugginn lokar. 

Hinn fjölhæfi Ainsley Maitland-Niles er á leið til leiðsins frá Arsenal á láni. Hinn 25 ára gamli Maitland-Niles var í láni hjá ítalska úrvalsdeildarliðinu Roma á síðustu leiktíð og West Bromwich Albion á Englandi þar áður. Hvort Ralph Hasenhüttl, þjálfari Southampton, sjái leikmanninn fyrir sér sem bakvörð eða miðjumann verður svo einfaldlega að koma í ljós.

Enska félagið er einnig að reyna krækja í vængmanninn Cody Gakpo frá PSV í Hollandi en glugginn þar í landi lokar í kvöld. Manchester United sýndi hinum 23 ára gamla Gakpo áhuga fyrr í sumar en keypti á endanum Antony frá Ajax.

Þá heldur Southampton áfram að sækja unga leikmenn frá stærstu liðum Englands en liðið hefur verið duglegt að gefa leikmönnum sem fá ekki tækifæri hjá Chelsea eða Manchester City smjörþefinn af ensku úrvalsdeildinni. Nú eru tveir leikmenn Man City við það að skrifa undir hjá Dýrlingunum. Um er að ræða Sam Edozie og Juan Larios. 

Hvort Southampton stefni á að sækja enn fleiri leikmenn fyrir gluggalok er óvíst en það verður nóg um að vera á skrifstofu liðsins á næstu klukkustundum. 

Southampton er sem stendur í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir fimm leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×