Umfjöllun,viðtöl og myndir: Breiða­blik-Víkingur 0-3 | Bikarmeistararnir afgreiddu Blika á tuttugu mínútum

Andri Már Eggertsson skrifar
Víkingur Reykjavík var þremur mörkum yfir í hálfleik
Víkingur Reykjavík var þremur mörkum yfir í hálfleik Vísir/Diego

Víkingur Reykjavík tryggði sér farseðilinn í úrslit Mjólkurbikarsins eftir sannfærandi 0-3 sigur. Víkingur byrjaði leikinn af miklum krafti og gerði þrjú mörk á tuttugu mínútum. Heimamenn gerðu hver mistökin á fætur öðru og Víkingur gekk á lagið.

Víkingur Reykjavík mætir annað hvort FH eða KA í úrslitum Mjólkurbikarsins. 

Leikurinn byrjaði með látum. Ríkjandi bikarmeistararnir úr Fossvoginum voru á tánum og voru komnir þremur mörkum yfir á fyrstu tuttugu mínútunum.

Fyrsta mark Víkings var ansi klaufalegt þar sem Birnir Snær Ingason kom boltanum fyrir markið þar sem Anton Ari Einarsson, markmaður Breiðabliks, kýldi boltann í Davíð Ingvarsson sem varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark.

Kyle Mc Lagan í baráttunniVísir/Diego

Þremur mínútum síðar gerði Karl Friðleifur Gunnarsson annað mark Víkings. Pablo Punyed kom boltanum fyrir markið þar hafði enginn varnarmaður Breiðabliks áhuga á að hreinsa boltann og Karl Friðleifur þrumaði boltanum í netið.

Á 20. mínútu gerði Höskuldur Gunnlaugsson hræðileg mistök þar sem hann ætlaði að gefa boltann á hafsent en þar var enginn og Erlingur komst í boltann lék á Anton Ara og gerði þriðja mark Víkings. Ótrúleg byrjun og fóru stuðningsmenn Víkings að syngja hvort þeir væru að mæta Augnabliki.

Víkingar að fagna þriðja markinuVísir/Diego

Þremur mörkum yfir þurfti Víkingur að gera tvær skiptingar í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Karl Friðleifur byrjaði á að fara út af meiddur en skömmu síðar bættist Nikolaj Hansen við.

Eftir sjö mínútna uppbótatíma var flautað til hálfleiks þar sem Víkingur var þremur mörkum yfir á Kópavogsvelli. Ég er sannfærður um það að bæði leikmenn og stuðningsmenn Víkings þurftu að klípa sig í hálfleik.

Það færðist hiti í leikinn í síðari hálfleik. Gísli Eyjólfsson ákvað að minna á sig og þrumaði Birni Snæ niður á vinstri kantinum þar sem hann setti harða öxl í andlitið á honum og Víkingar voru ekki sáttir. Vilhjálmur Alvar, dómari leiksins, hélt ró sinni og gaf Gísla gult spjald.

Það var hiti í leik kvöldsinsVísir/Diego

Það var meiri orka í Breiðabliki í síðari hálfleik. Heimamenn hótuðu þó ekki marki á fyrstu tuttugu mínútum síðari hálfleiks. Óskar reyndi svo að hrista upp í leiknum með því að setja Elfar Frey Helgason og Sölva Snæ Guðbjargarson inn á.

Breiðabliki tókst ekki að opna leikinn með marki og niðurstaðan 0-3 sigur Víkings Reykjavíkur sem mætir annað hvort FH eða KA í úrslitum Mjólkurbikarsins.

Stuðningsmenn Víkings voru í stuði í kvöldVísir/Diego

Af hverju vann Víkingur Reykjavík?

Víkingur Reykjavík kláraði leikinn á tuttugu mínútum. Blikar voru sjálfum sér verstir og gerðu barnaleg mistök í öllum þremur mörkum Víkings. 

Þremur mörkum undir hafði Breiðablik enga trú á endurkomu og sköpuðu sér afar fá færi til að komast til baka.

Hverjir stóðu upp úr?

Kyle Mc Lagan, leikmaður Víkings, var afar öflugur í hjarta varnarinnar og sá fyrir öllu sem Breiðablik reyndi að gera.

Birnir Snær Ingason, leikmaður Víkings, mætti með sjálfstraust í leikinn eftir að hafa gert sigurmark í síðasta leik. Birnir Snær var öflugur á kantinum og kom sjálfsmark Davíðs Ingvarssonar upp úr fyrirgjöf Birnis.

Hvað gekk illa?

Blikar urðu sér til skammar hvernig þeir spiluðu þessar fyrstu tuttugu mínútur. Það var með ólíkindum að enginn varnarmaður hafi hreinsað fyrirgjöf Pablo í öðru marki Víkings.

Leikplan Víkings var að ráðast á Höskuld Gunnlaugsson í bakverðinum og koma boltanum fyrir markið. Það gekk upp og fullkomnaði Höskuldur lélega frammistöðu með því að færa Víkingi mark á silfurfati þegar hann gaf boltann á Erling Agnarsson þegar hann ætlaði að gefa boltann til baka.

Þetta var annar hauskúpuleikur Breiðabliks í mánuðinum en Breiðablik tapaði fyrir Stjörnunni í upphafi ágúst mánaðar. 

Hvað gerist næst?

Víkingur fær ÍBV í heimsókn næsta sunnudag 14:00.

Á mánudaginn mætast Breiðablik og Valur á Kópavogsvelli.

Óskar Hrafn: Rosa lítið sem Arnar Gunnlaugsson segir sem hefur áhrif á okkur

Óskar Hrafn á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Diego

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var afar svekktur með frammistöðuna eftir leik. 

„Við vorum eftir frá byrjun leiks og vorum ekki grimmir sem kostaði okkur leikinn. Það var ekkert í leikskipulagi Víkings sem kom okkur á óvart. Við vissum að þeir myndu pressa og þeir eru gott pressulið,“ sagði Óskar Hrafn og hélt áfram.

„Við vissum að við þyrftum að vinna baráttuna út á vellinum en það vantaði upp á það í byrjun. Leikurinn var síðan búinn áður en hann byrjaði.“

Eftir tuttugu mínútna leik var skaðinn skeður og gerði Óskar sér grein fyrir að verkefni var ansi erfitt.

„Einhverja hluti hefðum við geta gert betur en það var högg að fá á sig þrjú mörk á fyrstu tuttugu mínútunum. Þegar leikurinn snýst á hvolf þá gerist þetta og ég ætla ekki að segja að leikmennirnir mínir brugðust illa við heldur var þetta erfið staða og við náðum ekki að vinna úr henni.“

„Leikir milli þessara liða eru augnabliks leikir. Þeir náðu augnablikinu í þessum leik við náðum því á þeirra heimavelli og þannig hefur sagan verið.“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, sagði í viðtali fyrir leikinn að ef Víkingur myndi vinna myndi það brjóta hjörtu Blika sem myndi hafa áhrif á Bestu deildina. 

„Ég held að það sé rosalega lítið sem Arnar Gunnlaugsson segi hafi áhrif á okkur. Við höfum verið fínir að standa upp eftir högg. Við höfum fengið stærra högg en þetta og staðið upp. Við munum ekki láta þetta tap skilgreina okkur og tímabilið sem hefur verið frábært hingað til,“ sagði Óskar Hrafn að lokum.

 Myndir:

Gísli Eyjólfsson með boltannVísir/Diego
Logi Tómasson ekki sátturVísir/Diego
Vilhjálmur Alvar dómari að gefa gula spjaldiðVísir/Diego
Það var fullt af fólki á Kópavogsvelli í kvöldVísir/Diego
Kyle Mc LaganVísir/Diego

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni í kvöldVísir/Diego

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira