Erlent

Aldar­fjórðungur frá dauða Díönu

Atli Ísleifsson skrifar
Bretar minnast margir Díönu prinsessu í dag þegar 25 ár eru liðin frá dauða hennar.
Bretar minnast margir Díönu prinsessu í dag þegar 25 ár eru liðin frá dauða hennar. AP

Aldarfjórðungur er í dag liðinn frá því að Díana prinsessa lést í bílslysi í frönsku höfuðborginni París, þá 36 ára gömul. Bresku prinsarnir Vilhjálmur og Harry munu verja deginum sitt í hvoru lagi, en þeir hafa vanalega komið saman á þessum degi til að minnast móður sinnar.

Díana lést í París þann 31. ágúst 1997 þegar synir hennar voru fimmtán og tólf ára gamlir. Auk Díönu lést Dodi Al-Fayed, kærasti hennar, og ökumaðurinn Henri Paul. Lífvörður Díönu, Trevor Reese-Jones, var sá eini sem komst lífs af í slysinu. 

Díana prinsessa í maí 1997.AP

Slysið varð í undirgöngum í París þegar þau voru á reyna að komast undan ljósmyndurum sem vildu ná myndum af parinu.

Hinn fertugi Vilhjálmur er annar í röðinni til að erfa bresku krúnuna. Hann tilkynnti nýverið að hann muni ásamt flytja frá London til Windsor-kastala, vestur af London, ásamt eiginkonu sinni Katrínu og þremur börnum.

Hinn 37 ára Harry býr nú í Kaliforníu ásamt eiginkonu sinni Meghan og tveimur börnum eftir að hann tilkynnti árið 2020 að hann myndi hverfa úr framlínu bresku konungsfjölskyldunnar.

Díana og Karl Bretaprins gengu í hjónaband árið 1981 en skildu loks formlega árið 1996. Sambandinu lauk hins vegar árið 1992.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×