Erlent

Selenskí varar inn­rásar­her­menn í Kher­son við yfir­vofandi gagn­á­rásum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rússar í Kherson búa sig nú undir gagnárás Úkraínumanna.
Rússar í Kherson búa sig nú undir gagnárás Úkraínumanna. epa/Sergei Ilnitsky

Úkraínuher hefur hafið gagnárás sína í suðurhluta Úkraínu, eftir að hafa unnið að því í nokkrar vikur að rjúfa birgðarlínur Rússa í Kherson og einangra innrásarhermenn þar.

Kherson var fyrsta stórborgin sem féll í hendur óvinarins eftir að Rússar hófu innrás sína í febrúar síðastliðnum.

Breska varnarmálaráðuneytið segir í daglegri stöðuuppfærslu að Rússar freisti þess nú að endurskipuleggja varnir sínar umhverfis borgina en Bretarnir segja sveitir Rússa undirmannaðar og háðar viðkvæmum birgðarlínum.

Yfirvöld í Rússlandi hafa gengist við því að hafa orðið fyrir gagnárás af hálfu Úkraínumanna en segjast hafa tekið á móti og fjöldi Úkraínumanna fallið.

Ráðamenn í Úkraínu hafa ekki viljað gefa of mikið upp um áætlanir sínar en Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti hefur varað við því að þeir rússnesku hermenn sem staddir eru í Kherson verði nú að gera upp við sig hvort þeir vilja bjarga lífi sínu og flýja ellegar eiga það á hættu að láta lífið í gagnárásinni.

Forsetinn var vígreifur í gærkvöldi og sagði landamæri Úkraínu og Rússlands ekki hafa breyst. 

„Þetta mun gerast. Þetta er okkar. Og rétt eins og samfélag okkar skilur það þá vil ég að innrásarherinn skilji það líka. Það er enginn staður fyrir þá á úkraínskri jörðu,“ sagði Selenskí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×