Enski boltinn

Conte: Þurfum tvo fé­laga­skipta­glugga í við­bót til að berjast um titilinn

Atli Arason skrifar
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham. Getty Images

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, telur að liðið þurfi tvo félagaskiptaglugga í viðbót til að búa til lið sem verður samkeppnishæft um Englandsmeistaratitilinn.

Í sumar hefur Tottenham fengið sjö nýja leikmenn til liðsins. Richarlison, Bissouma, Perisic, Spence, Forster, Udogie og Lenglet eru allir nýir í leikmannahóp Tottenham á þessu leiktímabili.

„Ef við berum okkur saman við síðasta tímabil, þá erum við með heilsteyptara lið en til að ná öðrum liðum á toppnum þá þurfum við meiri tíma, þolinmæði og félagaskiptaglugga. A.m.k. tvo félagaskiptaglugga til að ná sömu hæðum og toppliðin,“ sagði Conte

Tottenham hefur byrjað leiktímabilið í ár vel og hefur náð í tíu stig af tólf mögulegum. Tottenham er í þriðja sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal.

„Við höfum aðeins unnið í einn og hálfan mánuð með nýju leikmönnunum. Ég held að ég hafi gert vel með þessum félagaskiptum þar sem við höfum náð fjórum góðum úrslitum í jafn mörgum leikjum,“ sagði Conte áður en hann bætti við.

„Núna er að koma að því að við þurfum að spila leiki á þriggja daga fresti og þá verður eðlilegt að dreifa álaginu. Leikmennirnir þurfa að vera klárir og skilja að stundum þurfa þeir að eyða tíma á varamannabekknum. Á þessum tímapunkti munum við sjá og skilja hvort við séum með hóp sem er tilbúinn að berjast um titilinn eða hvort við þurfum að bæta við.“ 

Conte vildi hvorki neita né staðfesta að fleiri leikmenn væru væntanlegir til Tottenham áður en félagaskiptaglugginn lokar um næstu mánaðarmót.

Næsti leikur Tottenham er núna á miðvikudaginn gegn West Ham, í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×