Fótbolti

Einu ári síðar: Hvar stendur KSÍ?

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðni Bergsson og Vanda Sigurgeirsdóttir voru formenn KSÍ á síðasta ári en Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri.
Guðni Bergsson og Vanda Sigurgeirsdóttir voru formenn KSÍ á síðasta ári en Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri. Vilhelm/Hulda Margrét/Hulda Margrét

Í dag er slétt ár síðan Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður Knattspyrnusambands Íslands í skugga skandals sem skók sambandið. Síðan þá hefur verið skipt um formann og stjórn, tvær rannsóknarskýrslur verið skrifaðar og sex landsliðsmenn ekki spilað fyrir landsliðið frá því málið kom upp. En spurningin er hvað KSÍ hefur raunverulega gert í sínum málum síðan?

Atburðir síðasta hausts

Flestum er eflaust kunnugt um meginatriði málsins sem tröllreið umræðunni í íslensku samfélagi síðasta haust. KSÍ hafði verið undir pressu vegna greinaskrifa Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur, og sögusagna af misfallegum hlutum sem mismunandi landsliðsmenn karla í fótbolta áttu að hafa gert af sér, sem fóru á flug eftir að Gylfi Þór Sigurðsson var handtekinn í Englandi síðasta sumar.

KSÍ keypti þjónustu almannatenglafyrirtækis og sendi út yfirlýsingu 17. ágúst þar sem forsvarsmenn sambandsins vísuðu alfarið á bug hvers kyns ásökunum um að hylma yfir með meintum gerendum og þá fór Guðni Bergsson í afdrifaríkt viðtal við Kastljós á RÚV þann 26. ágúst, hvar hann ítrekaði það sem hafði komið fram í yfirlýsingu KSÍ: Að engin ofbeldismál leikmanna karlalandsliðsins gegn konum hefðu formlega komið inn á borð sambandsins.

Degi síðar var sú fullyrðing hrakin af Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur í viðtali við RÚV, sem vísaði til máls frá 2017 þar sem landsliðsmaður, sem síðar kom í ljós að var Kolbeinn Sigþórsson, hefði brotið á henni og vinkonu hennar. KSÍ vissi sannarlega af því máli þar sem faðir hennar vakti athygli Guðna Bergssonar á því í tölvupóstsamskiptum og símtölum snemma árs 2018.

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir opnaði sig um mál sitt frá 2017 eftir viðtal Guðna Bergssonar.Stöð 2

Mikil mótmæli brutust út og Guðni sagði af sér 29. ágúst 2021. Sama dag var tilkynnt að stjórn KSÍ myndi sitja áfram en Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður og stjórnarmeðlimur sambandsins, sagði þá í samtali við Vísi að stjórnin hefði engar upplýsingar fengið um ofbeldismál innan sambandsins.

„Þetta kom aldrei til umræðu á stjórnarfundi. Við fengum ekki upplýsingar. Ég sá umræddan póst fyrst í gær. Það er bara staðan,“ sagði Borghildur þá.

Sama dag sendi Íslenskur Toppfótbolti, hagsmunasamtök félaga í efstu tveimur deildum Íslandsmótsins, frá sér tilkynningu þar sem kallað var eftir afsögn bæði stjórnarinnar og Klöru Bjartmarz, framkvæmdastýru KSÍ. Coca Cola, einn af aðalstyrktaraðilum sambandsins, sendi þá frá sér tilkynningu þar sem lýst var yfir miklum áhyggjum af starfsemi KSÍ.

Borghildur Sigurðardóttir sagði stjórn KSÍ ekki hafa vitað af málunum en samkvæmt skýrslu úttektarnefndar á vegum ÍSÍ vissu Guðni Bergsson og Klara Bjartmarz af þremur málum.Stöð 2

Vissu af þremur málum

Degi síðar, 30. ágúst, sagði stjórn KSÍ af sér en framkvæmdastýran Klara Bjartmarz hélt sinni stöðu þrátt fyrir samskonar utanaðkomandi pressu um afsögn. Klara staðfesti sama dag vitund um annað mál innan sambandsins. Þar átti hún við meint brot Arons Einars Gunnarssonar og Eggerts Gunnþórs Jónssonar gegn konu í Kaupmannahöfn árið 2010. Starfsmaður sambandsins hafði formlega látið bæði Guðna og Klöru vita af því máli 3. júní 2021, sem er staðfest í skýrslu starfshóps ÍSÍ sem var gefin út í desember.

Í sömu skýrslu er staðfest að Klara og Guðni vissu einnig af meintu heimilisofbeldismáli Ragnars Sigurðssonar frá sumrinu 2016. Þegar málið kom upp var Geir Þorsteinsson formaður KSÍ en nefndin hefur eftir honum að málið hafi ekki verið innan landsliðsverkefnis og því aldrei verið „formlega á borði KSÍ og um einkalíf leikmannsins var að ræða”. Í skýrslunni segir að fyrstu viðbrögð Geirs eftir að málið kom inn á hans borð hafi verið að hafa samband við almannatengil, rétt eins og fyrstu viðbrögð eftirmanns hans voru sumarið 2021.

Skýrsluhöfundar gera sérstaka athugasemd við það þar sem furðulegt þykir að þörf sé á þjónustu almannatengils fyrst að, eins og Geir nefnir, málið snerti sambandið ekki heldur sé einkamál leikmannsins.

Guðni og Klara vissu því af þremur mismunandi málum þegar yfirlýsing sambandsins sem segir hið gagnstæða var gefin út þann 17. ágúst og þegar Guðni fór í Kastljósviðtal níu dögum síðar. Ef það sem Borghildur Sigurðardóttir lét hafa eftir sér 29. ágúst fyrir sléttu ári er rétt, þá sagði stjórn KSÍ af sér án þess að hafa vitað af málunum fyrr en tveimur dögum fyrir afsögn hennar.

Hvað átti að breytast?

„Þessi hreyfing verður að standa sig betur. Eins og ég sagði í ræðunni minni, við þurfum að hlusta á þolendur. Og við þurfum að búa til aðgerðaáætlanir sem grípa þessi mál miklu betur en verið hefur. Sú vinna er nú þegar farin í gang,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir í samtali við Vísi skömmu eftir að hún tók við sem formaður af Guðna í byrjun október í fyrra.

Vanda Sigurgeirsdóttir tók við embætti formanns eftir aukaþing KSÍ í byrjun október í fyrra.Vísir/Hulda Margrét

Téðar aðgerðaáætlanir hafa verið töluvert í umræðunni og sérstaklega voru FH-ingar háværir í ákalli sínu eftir slíku frá sambandinu. Mál Eggerts Gunnþórs Jónssonar komst í hámæli þegar körfuboltalandsliðsmaðurinn Martin Hermannsson gerði athugasemd við að hann væri í byrjunarliði FH-inga í fyrsta leik Bestu deildarinnar, í ljósi þess að hann sætti rannsókn lögreglu vegna meints ofbeldisbrots – sama brots og hélt Aroni Einari Gunnarssyni frá því að vera valinn í landsliðið.

Mikil pressa skapaðist í kringum lið FH sem flýtti sér hægt í málinu, en það var ekki fyrr en Kvika, meginstyrktaraðili liðsins, kallaði opinberlega eftir viðbrögðum að Eggert var settur til hliðar, rétt eins og hæstráðendur í KSÍ sögðu ekki af sér fyrr en stórir styrktaraðilar létu í sér heyra.

FH-ingar gáfu út yfirlýsingu þar sem tilkynnt var um þá ákvörðun að Eggert skildi taka sér pásu frá skyldum sínum hjá félaginu (sem hann að vísu gerði ekki að fullu leyti þar sem hann æfði áfram með liðinu) en nýttu tækifærið í tilkynningunni til að láta KSÍ heyra það.

„Félagið (…) bíður eins og önnur félög og sérsambönd enn eftir leiðbeinandi áliti og verklagsreglum frá ÍSÍ um hvernig aðildafélögum beri að taka á málum sem þessum,” segir í yfirlýsingunni sem var birt 21. apríl. Þá segir þar að KSÍ og ÍSÍ geti ekki gert kröfur á félögin sem þau geti ekki uppfyllt sjálf og að setja eigi vinnu við aðgerðaáætlun í forgang, enda hefði átt að ganga frá þeirri vinnu í mars.

FH-ingar létu því undan pressu frá almenningi og styrktaraðilum, líkt og stjórn KSÍ gerði, en firrtu sig ábyrgð og vísuðu henni til hærri ráðenda í hreyfingunni. Svipaðan tón var að heyra í Vöndu Sigurgeirsdóttur í viðtali við RÚV um málið þar sem hún nefndi einnig að ekkert regluverk væri til staðar og að KSÍ væri að bíða eftir slíku frá ÍSÍ.

Hvað hefur breyst?

Það var loks þann 25. maí síðastliðinn sem KSÍ tilkynnti um samþykkt stjórnar sambandsins um viðbragðsáætlun KSÍ.

„Stjórn KSÍ samþykkti að haft sé að leiðarljósi það meginviðmið, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa, vegna meintra alvarlegra brota, að þá skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir. Það gildir jafnt um dómara, þjálfara, leikmenn, forystumenn, starfsmenn og aðra þá sem eru innan KSÍ,“ segir á heimasíðu KSÍ og þar segir enn fremur að frekari drög að áætluninni verði áfram til umræðu.

Þetta er í raun eina breytingin sem sambandið hefur tilkynnt um frá því að málið kom upp fyrir ári síðan. Heildaráætlun virðist ekki liggja fyrir heldur einungis reglugrein sem segir til um að starfsfólk upplýsi sambandið ef það er til rannsóknar vegna alvarlegra brota og stígi til hliðar. Og FH brást þannig við reglunum að Eggert fór að spila aftur eftir niðurfellingu þess á héraðsstigi, en það var ekki fyrr en nú á dögunum að ríkissaksóknari kvað upp úr með að rannsókn á máli hans og Arons Einars hefði endanlega verið látin niður falla án ákæru.

Nóg á sambandið af tillögum til breytinga frá nefndunum tveimur sem fóru yfir málið.

Nefndin skipuð af ÍSÍ sem lagði sínar tillögur sínar fram í byrjun desember í fyrra sagði forgangsmál að klára boðaða forvarnar- og viðbragðsáætlun, og vekur athygli á því að upprunalega átti að ljúka þeirri vinnu í apríl 2021. Hún lagði sömuleiðis til að óháður aðili skyldi ráðinn af KSÍ til að fara með meðferð mála af þessum toga, aðili sem væri sjálfstæður í sínum störfum og stjórnendur KSÍ hefðu ekki beint boðvald yfir.

Annar starfshópur, sem skipaður var af KSÍ, skilaði sínum niðurstöðum í október og setti einnig þó nokkrar tillögur fram. Þar ber hæst að KSÍ uppfæri siðareglur sínar, enda er ekkert minnst á ofbeldi innan þeirra, og að skýrt verði kveðið á um ofbeldismál í samningum við starfsfólk og leikmenn. Einnig er kallað eftir að upplýsingar um ofbeldi og úrræði fyrir þolendur séu aðgengilegar á heimasíðum KSÍ, en könnun á meðal leikmanna á Íslandi sýndi fram á að 75 prósent leikmanna vissu ekki hvert ætti að leita ef ofbeldismál kæmu upp.

Í því samhengi er KSÍ nú með tengil á heimasíðu sinni á samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Sú staða var mynduð af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í vor. Embættinu er ætlað að leiðbeina einstaklingum sem telja sig hafa verið beitta ofbeldi í íþróttastarfi og er KSÍ með tengil á heimasíðu embættisins í færslu á vef sínum, líkt og flest önnur sérsambönd landsins.

Þá er einnig mælt með að KSÍ taki skýrari stöðu gegn ofbeldi og sýni það í verki og geri átak í þeim málum. Námsefni um jafnrétti og kynferðisofbeldi sé hluti af fræðslu þjálfara, að boðið sé reglulega upp á fræðslu af þeim toga bæði innan sambandsins og félaganna á þess vegum og að sambandið standi að herferð gegn bæði ofbeldi og skaðlegri menningu innan fótboltans.

Hvaða bil þarf að brúa?

Allt ofangreint er dæmi um aðgerðir sem KSÍ hefur kost á að ráðast í en ekki hefur bólað á. Eins og fótbolti getur virkað sem sameinandi og öflugt afl til góðs þá er hægt að líta á skrif fræðimanna á sviðum félagsfræði, siðfræði, kynjafræði og sálfræði sem sýna fram á tengsl milli íþrótta og karlmennskugilda (jafnvel eitraðar karlmennsku) og ofbeldis.

Sömuleiðis er tenging milli frægðar og frama og hættu á entitlement eða tilkalli, sem getur leitt til skorts á dómgreind og hættulegrar hegðunar þegar kemur að samskiptum við hitt kynið.

Alls voru sex landsliðsmenn (auk sjöunda leikmannsins sem leikur með FH) sakaðir um ofbeldi gegn konum en þeir hafa ekki verið valdir í landsliðið síðan að málið kom upp. Fjöldi málanna einn og sér segir til um ákveðin kúltúr innan liðs sem leikur á vegum KSÍ.

Rannsókn Alexanders Ágústs Mar Sigurðssonar sem vakin var athygli á í vikunni er áhugaverð í því samhengi þar sem segir að menningin í A-landsliðinu væri í raun „ á skjön við jákvæðari menningu“ í þeirra félagsliðum og það væri „eins og menn tækju skref niður á við í þroska þegar þeir kæmu í landsliðið“. Þar getur verið að áhættuþættirnir nefndir að ofan hafi eitthvað að segja, en KSÍ ber vitaskuld ábyrgð á menningunni í liðinu og þarf að vera meðvitað um áhættuþættina. Ef litið er til ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu tólf mánuðum, hafa fjórir leikmenn í deildinni, auk Gylfa Þórs, verið ýmist sakaðir eða kærðir fyrir alvarlegt ofbeldi gegn konum (Mason Greenwood, Benjamin Mendy, Thomas Partey og Yves Bissouma).

KSÍ ber skylda til fólks og barna sem spila fótbolta hér á landi, að þau geti gert það í öruggu umhverfi en að sama skapi getur forysta fyrir almannaheillum (sem fótbolti er), ekki staðið hjá aðgerðalaus á meðan almenningi stafar hætta af leikmönnum á þeirra snærum. Nú hefur eitt skref verið tekið, svo að félög, líkt og FH í þessu tilfelli, hafa regluverk til að halla sér á ef svo fer að leikmaður eða starfsmaður þess er undir lögreglurannsókn fyrir ofbeldi.

Það er hins vegar aðeins einn smár liður í heildarendurskoðun sem þarf að eiga sér stað í íslenskum fótbolta, enda sýnir þetta mál síðasta haust að pottur var víða brotinn þegar kemur að meðhöndlun slíkra mála.

Mikil áhersla hefur verið lögð á þann hluta áætlunarinnar sem þegar hefur verið kynntur, sem gefi félögum og KSÍ þetta regluverk ef mál kemur upp, en setja má spurningamerki við það hvort einblína eigi á viðbrögð fram yfir forvarnir. Velta má því upp hvort mikilvægara sé leitast við að tryggja það að svona mál komi ekki upp aftur, það er að leikmenn beiti ekki frekara ofbeldi, fremur en að áhersla sé lögð á viðbrögð við málum sem þegar hafa átt sér stað.

Þessi eini liður sem er klár var ekki frágenginn fyrr en seint í maí, tveimur mánuðum á eftir áætlun, en hann er hluti af heildar viðbragðsáætlun sem átti upprunalega að vera klár í apríl í fyrra. Spurningin sem stendur eftir er því hversu lengi biðin dregst eftir framkvæmd hinna tillaganna?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×