Arsenal á toppinn eftir öruggan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arsenal hefur farið frábærlega af stað í ensku úrvalsdeildinni.
Arsenal hefur farið frábærlega af stað í ensku úrvalsdeildinni. Alex Davidson/Getty Images

Arsenal vann afar sannfærandi 0-3 útisigur er liðið heimsótti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Sigurinn lyftir liðinu í það minnsta tímabundið á topp deildarinnar.

Það er óhætt að segja að yfirburðir Arsenal hafi verið miklir í dag. Liðið byrjaði af miklum krafti og Norðmaðurinn Martin Ødegaard kom liðinu í forystu eftir aðeins fimm mínútna leik.

Ødegaard var svo aftur á ferðinni á 11. mínútu leiksins þegar hann tvöfaldaði forystu gestanna eftir stoðsendingu frá nýja framherjanum Gabriel Jesus og staðan var því 0-2 þegar flautað var til hálfleiks.

Yfirburðir Arsenal héldu áfram í síðari hálfleik og William Saliba skoraði þriðja mark gestanna á 54. mínútu með fallegu skoti eftir sendingu frá Granit Xhaka.

Gabriel Jesus skoraði svo fjórða mark Arsenal á 72. mínútu, en eftir langa skoðun myndbandsdómara kom í ljós að Brassinn var hársbreidd fyrir innan varnarlínu Bournemouth og rangstaða dæmd.

Niðurstaðan varð því öruggur 0-3 sigur Arsenal og liðið er enn með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Arsenal trónir nú á toppi deildarinnar með níu stig, en Bournemouth hefur aðeins fengið þrjú.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira