Enski boltinn

Birti ógeðsleg skilaboð frá íslenskum strák

Sindri Sverrisson skrifar
Joachim Andersen og Darwin Nunez glímdu á Anfield í gærkvöld og því lauk með því að Nunez skallaði Andersen og fékk rautt spjald.
Joachim Andersen og Darwin Nunez glímdu á Anfield í gærkvöld og því lauk með því að Nunez skallaði Andersen og fékk rautt spjald. Getty/Robbie Jay Barratt

Danski miðvörðurinn Joachim Andersen fékk hundruð hatursfullra skilaboða frá stuðningsmönnum Liverpool eftir viðskipti sín við Darwin Núnez í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöld. Hann birti nokkur skilaboð, þar á meðal ein frá íslenskum táningi.

Núnez fékk rauða spjaldið á 57. mínútu, í leik Liverpool gegn Crystal Palace í gær, eftir að hafa skallað Andersen.

Þrátt fyrir að verða manni færri náðu Liverpool-menn að jafna metin og lauk leiknum 1-1 en mikil reiði beindist gegn Andersen á samfélagsmiðlum.

Daninn greindi frá því á Instagram í dag að hann hefði í gærkvöld fengið á bilinu 3-400 skilaboð. Hann birti sum þeirra og eru þau vægast sagt viðbjóðsleg, þar sem Andersen er til að mynda óskað dauða og bæði honum og fjölskyldu hans hótað.

Ein skilaboðanna voru frá Íslendingi og má sjá þau hér að neðan en þar kveðst viðkomandi óska þess að Andersen og danska þjóðin „deyi í helvíti“, hann sagður eiga skilið að vera skallaður og kallaður öllum illum nöfnum.

Svona voru skilaboðin frá íslenskum táningi sem Joachim Andersen birti.Skjáskot/@joachimandersen3

Andersen segist vonast til þess að Instagram og enska úrvalsdeildin geri eitthvað í málinu. 

„Ég skil að menn styðji sitt lið en sýnið virðingu og hættið að vera með töffaraskap á netinu,“ skrifar Andersen.

Uppfært: Íslenski strákurinn sem um ræðir hefur nú sent Andersen önnur skilaboð og beðist afsökunar á framferði sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×