Enski boltinn

Man. City sækir bak­vörð sem var í ung­linga­liði Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sergio Gómez mun leika í treyju númer 21 hjá Manchester City.
Sergio Gómez mun leika í treyju númer 21 hjá Manchester City. Twitter@@ManCity

Manchester City hefur fest kaup á hinum Spánverjanum Sergio Gómez. Hann leikur iðulega í stöðu vinstri bakvarðar og lék síðast með Anderlecht í Belgíu. Gómez skrifar undir fjögurra ára samning við Englandsmeistarana.

Gómez er fæddur árið 2001 og hefur spilað fyrir öll yngri landslið Spánar. Alls á hann að baki 54 leiki fyrir U-16 til U-21 landslið þjóðar sinnar. Eftir að vera hjá Barcelona frá 2010 til 2018 færði Gómez sig um set og samdi við Borussia Dortmund í Þýskalandi.

Hann lék aðeins tvo leiki með aðalliði félagsins og var lánaður til Huesca á Spáni áður en Anderlecht fékk hann í sínar raðir á síðustu leiktíð. Þá var Vincent Kompany, fyrrum fyrirliði Man City, þjálfari belgíska liðsins en hann þjálfar Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í Burnley nú.

Talið er að City borgi 13 milljónir evra fyrir þennan unga vinstri bakvörð. Á hann að fylla skarð Oleksandr Zinchenko sem gekk í raðir Arsenal fyrr í sumar.

Lærisveinar Pep Guardiola hafa byrjað ensku úrvalsdeildina einkar vel en liðið hefur unnið báða leiki sína til þessa, skorað sex mörk og hefur ekki enn fengið á sig mark.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.