Enski boltinn

Chelsea þarf að punga út rúm­lega átta milljörðum fyrir ungstirnið úr Bítla­borginni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anthony Gordon í baráttunni við Kalidou Koulibaly er liðin mættust í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Anthony Gordon í baráttunni við Kalidou Koulibaly er liðin mættust í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. EPA-EFE/Andrew Yates

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Chelsea sé á höttunum á eftir Anthony Gordon, leikmanni Everton. Chelsea hefur boðið 40 milljónir punda en liðið frá Bítlaborginni sættir sig ekki við minna en 50 milljónir punda.

Það virðist sem Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, stefni ekki á að kaupa hefðbundinn sóknarmann í sumar þó svo að Romelu Lukaku sé farinn aftur til Inter Milan og Timo Werner sé farinn aftur til RB Leipzig.

Samkvæmt hinum ýmsu miðlum er hinn 21 árs gamli Anthony Gordon helsta skotmark Chelsea í dag. Gordon hefur spilað í hlutverki falskrar níu í upphafi tímabils en verður þó seint talinn hefðbundinn sóknarmaður.

Talið er að Tuchel sé tilbúinn að senda Armando Broja á láni til Everton til þess að fá Gordon í sínar raðir. Everton hefur nú þegar neitað 40 milljón punda tilboði Chelsea og talið er að félagið sætti sig ekki við neitt minna en 50 milljónir punda fyrir þennan unga og efnilega leikmann.

Leikmannahópur Chelsea hefur tekið töluverðum breytingum í sumar en félagið hefur eytt dágóðri summu í þá Raheem Sterling, Marc Cucurella, Kalidou Koulibaly og Carney Chukwuemeka.

Töluverðar breytingar gætu enn orðið á leikmannahópi liðsins en Broja er orðaður frá félaginu á láni og þá gæti miðjumaðurinn Conor Gallagher einnig farið á láni. Sömu sögu er að segja af vængmanninum Callum Hudson-Odoi sem hefur verið orðaður við Borussia Dortmund og þá virðast dagar Hakim Ziyech á Brúnni vera taldir.

Félagaskiptaglugginn lokar þann 1. september næstkomandi og því enn nægur tími fyrir Tuchel til að sækja eða losa sig við leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×