Íslenski boltinn

Arnar rak fjórða dómarann út af skrifstofu í KA-heimilinu daginn eftir leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Grétarsson var ekki sáttur þegar hann sá Svein Arnarsson inni á skrifstofu í KA-heimilinu daginn eftir leikinn gegn KR.
Arnar Grétarsson var ekki sáttur þegar hann sá Svein Arnarsson inni á skrifstofu í KA-heimilinu daginn eftir leikinn gegn KR. vísir/diego

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, segist hafa farið langt yfir strikið í mótmælum sínum í leiknum gegn KR í Bestu deild karla. Hann vísaði fjórða dómara leiksins út af skrifstofu í KA-heimilinu daginn eftir.

Arnar var rekinn af velli í leik KA og KR 2. ágúst síðastliðinn. KR-ingar unnu leikinn, 0-1, en KA-menn voru afar ósáttir við að fá ekki vítaspyrnu undir lok leiks. 

Arnar fékk einnig rautt spjald í fyrri leiknum gegn KR. Fyrr í þessari viku var svo greint frá því að hann hefði verið úrskurðaður í fimm leikja bann af aganefnd KSÍ. Þá fékk KA hundrað þúsund króna sekt vegna framkomu Arnars.

Þjálfarinn ræddi um rauða spjaldið, bannið og samskipti sín við fjórða dómara leiksins gegn KR, Svein Arnarsson, við Ríkharð Óskar Guðnason í Þungavigtinni.

„Það er búið að gusta vel um okkur og sérstaklega um mig. Það verður að segjast alveg eins og er að ég á allan þátt í því. Eftir rauða spjaldið hagaði ég mér á alveg gjörsamlega óásættanlegan máta og sprakk,“ sagði Arnar.

„Ég sé gríðarlega eftir því og nota tækifærið hér og nú og bið þessa einstaklinga innilega afsökunar vegna þess að það er ekkert sem afsakar það, sama hvort dómarar eru mjög slakir eða ekki, að þú missir þig svona. Ég missti bara hausinn, hagaði mér gríðarlega illa og kom sjálfum mér, leikmönnum og félaginu í slæma stöðu og sé fyrst og fremst gríðarlega eftir því.“

Klippa: Þungavigtin - Viðtal við Arnar Grétarsson

Morguninn eftir leikinn gegn KR mætti Arnar til vinnu í KA-heimilinu og þar hitti hann fjórða dómarann sem er búsettur á Akureyri. Þrátt fyrir að rúmur hálfur sólarhringur væri liðinn frá því leiknum lauk var Arnari ekki runnin reiðin.

„Ég labbaði framhjá skrifstofu sem er við hliðina á minni og þar sé ég fjórða dómara vera að rölta inn í herbergi þar sem handboltaþjálfararnir eru. Þar er hann bara með kaffibolla og enginn annar inni. Ég var ekki enn búinn að jafna mig á þessu nokkrum klukkutímum seinna og vísaði honum út. Ég held ég hafi ekki notað einhver ljót orð en auðvitað var mér enn heitt í hamsi,“ sagði Arnar. Honum finnst sem Sveinn hefði getað lesið betur í aðstæður þennan morguninn þegar hann kom með barn sitt á æfingu.

„Heilt yfir leggja dómarar það ekki í vana sinn, og ég tala nú ekki um eftir svona atvik, að fara beint upp og að nudda salti í sárin. Eina sem ég gerði var að vísa honum út og spurði hann hvort hann hefði ekki átt að halda sig fjarri og gefa manni allavega dag til að jafna sig á hlutunum. Ég er hundrað prósent viss á því að ef hann hefði mætt tveimur dögum seinna hefði ég beðist afsökunar á mínu framferði og rætt atvikið.“

Arnar segist ekki hafa elt Svein út á bílastæði og haldið áfram að skammast í honum þar eins og rætt hefur verið um. Hann sagðist hins vegar hafa frétt af því að Sveinn hafi komið aftur upp í KA-heimili á sama tíma daginn eftir. Arnar hitti Svein hins vegar ekki þá en segist ætla að biðja hann afsökunar næst þegar hann rekst á hann.

KA hefur áfrýjað banninu sem Arnar fékk. Beri það ekki árangur getur hann ekki stýrt KA-mönnum aftur í Bestu-deildinni fyrr en gegn Blikum 11. september.

Hlusta má á viðtalið við Arnar í spilaranum hér fyrir ofan. Nálgast má þætti af Þungavigtinni á Spotify, Apple Podcasts og Tal.is/vigtin.


Tengdar fréttir

„Þá þarf að taka þessa aganefnd og sópa henni allri út á haf“

Mikið hefur verið rætt og ritað um samskipti Arnars Grétarssonar og Sveins Arnarssonar, fjórða dómara í leik KA og KR á dögunum, eftir að sá fyrrnefndi var dæmdur í fimm leikja bann. Rikki G, Mikael og Kristján Óli í Þungavigtinni létu ekki sitt eftir liggja í umræðunni.

Sveinn dómari neitar að tjá sig um hvað gerðist og Arnar svarar ekki

Arnar Grétarsson, þjálfari KA í Bestu deild karla í fótbolta, var í gær dæmdur í fimm leikja bann af aganefnd KSÍ. Bannið fékk hann eftir að hafa fengið sitt annað rauða spjald í sumar, orð sem hann lét falla eftir að spjaldið fór á loft og atvik sem átti sér stað degi síðar.

Arnar úrskurðaður í fimm leikja bann og KA fær sekt

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var í dag úrskurðaður í fimm leikja bann af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ fyrir framkomu sína í garð dómara í leik liðsins gegn KR fyrir rúmri viku síðan.

Arnar sér bara rautt þegar hann mætir KR

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, fékk rauða spjaldið í leik liðsins á móti KR á Akureyri í gær. Þetta er í annað skiptið í sumar sem Arnar fær rautt í leik á móti Vesturbæjarliðinu.

Sérfræðingar Stúkunnar skildu reiði KA-manna

KA-menn voru vægast sagt ósáttir að fá ekki vítaspyrnu í uppbótartíma í leiknum gegn KR-ingum í Bestu deild karla í gær. Sérfræðingar Stúkunnar sögðu að Akureyringar hefðu ýmislegt til síns máls.

Ef ég fór yfir strikið þá bið ég bara dómarann afsökunar

„Við erum ofboðslega ánægðir með sigurinn, þetta eru mjög dýrmæt stig fyrir okkur. Það að vinna 1-0 er alltaf gott,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR eftir 1-0 sigur á KA á Akureyri en þetta var fyrsti sigur KR í 66 daga í deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×