Íslenski boltinn

Sérfræðingar Stúkunnar skildu reiði KA-manna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var rekinn af velli fyrir mótmæli í leiknum gegn KR í gær.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var rekinn af velli fyrir mótmæli í leiknum gegn KR í gær. vísir/pawel

KA-menn voru vægast sagt ósáttir að fá ekki vítaspyrnu í uppbótartíma í leiknum gegn KR-ingum í Bestu deild karla í gær. Sérfræðingar Stúkunnar sögðu að Akureyringar hefðu ýmislegt til síns máls.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma tæklaði Atli Sigurjónsson Gaber Dobrovoljc inni í vítateig KR. Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, dæmdi ekki neitt nema hornspyrnu. Arnar Grétarsson, þjálfari KA, mótmælti kröftuglega og fékk rauða spjaldið. Hann var einnig rekinn af velli í fyrri leiknum gegn KR og er því á leið í tveggja leikja bann.

„Þetta er bara víti, að mínu mati,“ sagði Baldur Sigurðsson í Stúkunni eftir leikinn í gær. Hann skýrði svo mál sitt frekar.

„Eina sem getur kannski blekkt augað okkar er hvort Atli hafi farið utan við hann, eða fyrir framan hann, þannig að hann sé að sparka hér en hann virðist fara undir sólann. Það er alltaf brot.“

Klippa: Stúkan - vítið sem KA vildi fá

Í viðtali eftir leikinn lét Arnar gamminn geysa og beindi athygli sinni meðal annars að fjórða dómaranum, Sveini Arnarssyni, og sagði hann ekki starfi sínu vaxinn.

Engin tilfinning fyrir leiknum

„Þegar það er hiti í leiknum og í rauninni búið að vera allan leikinn þá gerist ýmislegt. Mér fannst KR-ingarnir búnir að vera tuðandi í fjórða dómara nærri allan leikinn og við eflaust líka en í miklu minni mæli. Kollegi minn hann Rúnar [Kristinsson, þjálfari KR] hann fær nú gula spjaldið fyrir eitthvað tuð. Það er brotið á mínum leikmanni innan teigs í uppbótartíma og við hlaupum hér og biðjum um víti. Ef að þetta var línan í leikum að gefa mér rautt spjald fyrir þetta, við vorum ekki að kalla fáviti eða hálfviti eða eitthvað slíkt. Við vorum að biðja um vítaspyrnu,“ sagði Arnar. 

„Ég missti mig eftir að ég fékk rauða spjaldið en þegar fjórði dómari er einhver sem hefur enga tilfinningu fyrir leiknum þá færðu svona móment í leikjum. Hann er bara ekki klár í þetta hlutverk, vegna þess að menn hafa þurft að spila leikinn og þurfa að hafa smá tilfinningu fyrir leiknum. Það var engin ástæða til að gefa rautt spjald þarna miða við línuna sem var búin að haldast allan leikinn, þetta var mjög strangur dómur.“

Sigurinn í gær var sá fyrsti hjá KR síðan í maí, eða í 66 daga. Þetta var aftur á móti fyrsta tap KA síðan 20. júní. KA-menn eru í 3. sæti Bestu deildarinnar með 27 stig eftir fimmtán leiki.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.