Erlent

Fundu málverk metið á átta milljarða undir rúmi svikahrapps

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Málverkið Sol Poente eftir Tamara do Amaral sem fannst í lögreglurassíunni.
Málverkið Sol Poente eftir Tamara do Amaral sem fannst í lögreglurassíunni. AP

Málverk eftir Tarsila do Amaral, einn þekktasta listmálara Brasilíu, fannst falið undir rúmi meints svikahrapps í lögreglurassíu á Ipanema-strönd í Rio de Janeiro á miðvikudagsmorgun. Rassían tengdist margra milljarða listaverkastuldi og fjársvikum sem beindust að 82 ára gamalli konu.

Olíumálverkið Sol Poente eða Sólsetur eftir Amaral er frá árinu 1929 og er metið á 300 milljónir brasilískra reala, rétt tæplega átta milljarða íslenskra króna. 

Málverkið fannst undir rúmi í lögreglurassíu sem beindist að hópi svikahrappa sem höfðu notfært sér 82 ára gamla ekkju listaverkasafnara, frelsissvipt hana og stolið um sextán málverkum af henni.

Dóttir konunnar meðal hinna grunuðu

Fjórir voru handteknir í tengslum við málverkafundinn en þeirra á meðal var dóttir fórnarlambsins.  Lögreglan grunar hópinn um að hafa stolið sextán málverkum, að andvirði 709 milljóna brasilískra reala eða um 19 milljarða íslenskra króna, af konunni.

Málverkið Operarios eftir Amaral.AP

Af þeim sextán málverkum sem hurfu af heimili konunnar voru nokkur seld til safnara og listasafna. 

Þar á meðal voru tvö málverk seld til MALBA, rómansk-ameríska listasafnsins í Bueons Aires, í Argentínu og þrjú voru rakin til listagallerís í São Paulo í Brasilíu.

Auk þess hafði skartgripum að andvirði rúmlega 160 milljarða íslenskra króna verið stolið af heimilinu.

Buðust til að bjarga dótturinni

Að sögn lögreglunnar í Brasilíu hófust þessi stórfelldu fjársvik í janúar 2020 þegar dóttir konunnar réði loddaraskyggn sem spáði því að dóttirin væri við dauðans dyr. 

Skyggnið fór síðan með gömlu konuna til spámanns og afró-brasilískrar hofgyðju sem staðfestu spádóminn. Næstu vikurnar bauð tríóið fram aðstoð sína til að bjarga dóttur konunnar og létu gömlu konuna greiða fyrir þá þjónustu. 

Þegar grunsemdir vöknuðu hjá konunni um heilindi fólksins og hún neitaði að borga lokuðu þau hana inni á heimili hennar, hótuðu henni, börðu hana og rændu listaverkum af henni.

Hópurinn stal alls sextán málverkum af gömlu konunni en þau eru metin á rúmlega 18 milljarða íslenskra króna.AP


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.