Íslenski boltinn

Vont verður verra fyrir FH: Tímabilinu lokið hjá Loga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Logi Hrafn Róbertsson þykir einn allra efnilegasti leikmaður landsins.
Logi Hrafn Róbertsson þykir einn allra efnilegasti leikmaður landsins. vísir/Hulda Margrét

Logi Hrafn Róbertsson, einn besti leikmaður FH, hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili. Hann gekkst undir aðgerð í gær vegna ristarbrots.

Ekkert hefur gengið hjá FH-ingum í sumar. Þeir eru án sigurs í tíu deildarleikjum í röð og eru aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti í Bestu deildinni.

FH verður að spjara sig á lokakafla tímabilsins án Loga. Hann ristarbrotnaði á æfingu og gekkst undir aðgerð í gær. Hann birti mynd af sér á sjúkrabeði á Instagram í gær. 

Logi lék tólf deildarleiki með FH í sumar og skoraði eitt mark. Þrátt fyrir að vera aðeins nýorðinn átján ára hefur hann leikið 31 leik í efstu deild. Logi hefur leikið sextán leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Næsti leikur FH er gegn Kórdrengjum í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins á fimmtudaginn. Á sunnudaginn sækir FH ÍBV heim í 17. umferð Bestu deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×