Erlent

Fær annan lífs­­tíðar­­dóm fyrir morðið á Arbery

Bjarki Sigurðsson skrifar
Travis McMichael var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa framið hatursglæp er hann myrti Ahmaud Arbery.
Travis McMichael var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa framið hatursglæp er hann myrti Ahmaud Arbery. AP/Stephen B. Morton

Travis McMichael var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að fremja hatursglæp er hann myrti Ahmaud Arbery árið 2020 vegna litarháttar hans. Morðið framdi McMichael með tveimur öðrum karlmönnum en allir eru þeir hvítir en Arbery var svartur.

Morðið vakti mikla athygli hitt í fyrra en Arbery var úti að skokka og óvopnaður þegar mennirnir þrír myrtu hann. Töldu mennirnir þrír, feðgarnir Gregory og Travis McMichael og nágranni þeirra, William Bryan, að Arbery bæri ábyrgð á innbrotahrinu í nágrenni sínu.

Mennirnir þrír, frá vinstri: Travis McMichael, Gregory McMichael og William Bryan.AP/Fangelsið í Glynn-sýslu

Þeir sátu fyrir honum en þegar þeir sökuðu Arbery um innbrotin hljóp hann í burtu og Travis elti, vopnaður haglabyssu. Þegar Arbery reyndi að taka byssuna af Travis þá skaut Travis hann þrisvar sinnum. Atvikið náðist á myndband.

Feðgarnir og Bryan voru allir handteknir tveimur mánuðum eftir morðið og í janúar á þessu ári voru þeir allir dæmdir til lífstíðarfangelsisvistar, feðgarnir án rétts til reynslulausnar, en Bryan getur sótt um reynslulausn eftir þrjátíu ár.

Travis var í dag dæmdur aftur í lífstíðarfangelsi, nú fyrir hatursglæp. Hatursglæpir eru brot á alríkislögum en morðið sjálft hafði einungis verið brot á ríkislögum í Georgíu-ríki. Dómarinn í málinu, Lisa Godbey Wood, sagði fyrir dómi í dag að Travis hafi fengið réttmæt réttarhöld, ólíkt Arbery.

Travis vildi sjálfur ekki tjá sig í réttarsal en lögmaður hans, Amy Lee Copeland, bað um að hann fengi vægari dóm þar sem hann hafði aldrei gerst sekur um brot á lögum áður og gegndi herskyldu á árum áður.


Tengdar fréttir

Feðgarnir eiga ekki rétt á reynslu­lausn

Feðgarnir Greg og Travis McMichael voru í dag dæmdir til að verja ævi þeirra í fangelsi. Dómari úrskurðaði að þeir ættu ekki rétt á reynslulausn eftir að þeir voru dæmdir fyrir að myrða hinn 25 ára gamla Ahmaud Arbery árið 2020. Nágranni þeirra og samverkamaður, William Bryan, mun hins vegar geta sótt um reynslulausn eftir þrjátíu ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×