Enski boltinn

Meiðsli Martials auka á hausverk nýja stjórans fyrir fyrsta leik

Sindri Sverrisson skrifar
Anthony Martial þótti sýna flotta frammistöðu á undirbúningstímabilinu hjá Manchester United.
Anthony Martial þótti sýna flotta frammistöðu á undirbúningstímabilinu hjá Manchester United. EPA-EFE/JOEL CARRETT

Erik ten Hag þarf að finna út úr því hver á að leiða sóknarlínu Manchester United á sunnudag, í fyrsta leik tímabilsins, og nú er ljóst að það verður ekki Frakkinn Anthony Martial.

Martial þótti afar líklegur til að fá sæti í byrjunarliði United gegn Brighton á sunnudaginn eftir að hafa staðið sig vel á undirbúningstímabilinu. Hann var að láni hjá Sevilla seinni hluta síðustu leiktíðar en hefur skorað þrjú mörk fyrir United í vináttuleikjum sumarsins, undir stjórn nýja stjórans.

Martial er hins vegar meiddur í læri og missir af leiknum við Brighton, samkvæmt frétt The Athletic. Um minni háttar meiðsli er að ræða en mögulegt er að Martial geti mætt Brentford 13. ágúst. Að öðrum kosti yrði fyrsti leikur hans gegn Liverpool 22. ágúst.

Hinn 37 ára gamli Cristiano Ronaldo lýsti því yfir við forráðamenn United í sumar að hann vildi komast frá félaginu og spilaði aðeins einn leik á undirbúningstímabilinu, gegn Rayo Vallecano, og yfirgaf leikvanginn áður en leik lauk eftir að hafa verið skipt af velli. Það vakti litla kátínu hjá nýja stjóranum.

Ef Ten Hag stillir Ronaldo ekki upp í fremstu víglínu gæti hann ákveðið að hafa Marcus Rashford sem fremsta mann gegn Brighton.

Góðu fréttirnar fyrir nýja stjórann eru þær að Jadon Sancho hefur jafnað sig af veikindum og er klár í slaginn, samkvæmt frétt The Athletic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×