Fótbolti

Ten Hag: Óásættanleg hegðun hjá Ronaldo

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ten Hag og Ronaldo fara yfir málin í leiknum við Rayo Vallecano.
Ten Hag og Ronaldo fara yfir málin í leiknum við Rayo Vallecano. Jan Kruger/Getty Images

Hollendingurinn Erik ten Hag, þjálfari Manchester United, segir ekki ásættanlegt að Cristiano Ronaldo og fleiri leikmenn liðsins hafi farið snemma af æfingaleik liðsins við Rayo Vallecano um liðna helgi.

Ronaldo var gagnrýndur fyrir að yfirgefa völlinn snemma en David De Gea og Bruno Fernandes eru sagðir á meðal þeirra sem voru með í för. Miðlar í Manchester greindu síðan frá því að ten Hag hafi lagt blessun sína yfir það að þeir færu snemma til að sleppa við umferð eftir leik.

Ten Hag vísar þessu á bug í viðtali við hollenska fjölmiðla.

„Það voru fleiri en hann sem fóru og ég sætti mig alls ekki við þetta,“ sagði ten Hag við Viaplay í Hollandi.

„Mér finnst þetta óásættanleg hegðun, fyrir alla. Við erum lið og liðsheild. Menn þurfa að standa með sínu liði allt til enda,“ sagði ten Hag enn fremur.

Ronaldo hefur verið orðaður við brottför frá United í sumar þar sem hann er sagður vilja fara til liðs í Meistaradeild Evrópu. Það hefur hins vegar gengið illa hjá honum að finna félag.

Óljóst er hvað verður en ten Hag lét hafa eftir sér um helgina að Ronaldo þyrfti að æfa meira með liðinu og ná upp leikæfingu áður en hann spilaði undir sinni stjórn.

Manchester United hefur leik í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag er Brighton & Hove Albion heimsækir Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×