Enski boltinn

Henderson segir meðferð United á sér „glæpsamlega“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dean Henderson er ósáttur við meðferðina sem hann fékk hjá United.
Dean Henderson er ósáttur við meðferðina sem hann fékk hjá United. James Gill - Danehouse/Getty Images

Markvörðurinn Dean Henderson fer ekki fögrum orðum um félag sitt, Manchester United. Hann gekk til liðs við nýliða Nottingham Forest á láni fyrr í sumar og segir meðferð United á sér glæpsamlega.

Fyrir seinasta tímabil fékk Henderson þær fréttir að hann yrði aðalmarkvörður United. Hann fékk þó nánast engan spiltíma eftir að hafa misst af EM vegna meiðsla, ásamt því að greinast með kórónuveiruna í upphafi tímabils.

Hann segist hafa verið algjörlega brjálaður yfir því að hafa ekki fengið meiri spiltíma og að hann hafi ekki rætt við nýráðinn stjóra United, Erik ten Hag eftir komu hans til liðsins.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hafa þetta líklega verið erfiðustu tólf mánuðir ferilsins,“ sagði Henderson.

„Þetta var pirrandi af því að ég hafnaði svo mörgum góðum lánssamningum síðasta sumar af þessari ástæðu, en þeir vildu ekki leyfa mér að fara.“

Henderson varð aðalmarkvörður United undir stjórn Ole Gunnar Solskjær seinni hluta tímabilsins 2020/2021. Hann var þó ekki valinn í byrjunarliðið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Villareal.

Eftir að hafa misst af fyrstu leikjum seinasta tímabils vegna kórónuveirusmitsins fékk Henderson svo aðeins þrjá byrjunarliðsleiki allt seinasta tímabil undir stjórn Solskjær og síðar bráðabirgðastjórans Ralf Rangnick.

„Samtalið sem ég átti eftir EM var alltaf þannig að ég væri að koma aftur hingað til að vera númer eitt. Ég fékk Covid og kom til baka þannig ég hefði enn átt að vera númer eitt, en það fylgdi enginn þessu samtali eftir.“

„Það að sitja þarna í 12 mánuði á mínum aldri er í raun glæpsamlegt. Ég var brjálaður. Ég sagði yfirmönnunum að ég þyrfti að vera að spila fótbolta og bað þá um að leyfa mér að fara. Ég var næstum farinn áður en þjálfarinn [Erik ten Hag] gekk inn um dyrnar. Ég hef ekki talað við hann síðan hann kom,“ sagði Henderson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×