Umfjöllun og viðtal: Valur-FH 2-0 | Óli Jó lagði fyrrverandi lærisveina sína að velli

Sverrir Mar Smárason skrifar
Matthías Vilhjálmsson og Birkir Heimisson berjast í leik liðanna í fyrra.
Matthías Vilhjálmsson og Birkir Heimisson berjast í leik liðanna í fyrra. Vísir/Bára Dröfn

Valur bar sigur úr býtum þegar liðið fékk FH í heimsókn á Origo-völlinn að Hlíðarenda Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Guðmundur Andri Tryggvason skoraði bæði mörk Vals í 2-0 sigri liðsins.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, gerði áhugaverða breytingu á liði sínu fyrir leikinn þegar hann ákvað að byrja með Jesper Juelsgård í hafsent og færa Sigurð Egil Lárusson í bakvörð. Sú breyting heppnaðist og hafði Ólafur betur gegn sínum fyrrum lærisveinum í FH sem sögðu honum upp um mitt mót.

Eiður Smári Guðjohnsen á hins vegar enn eftir að stýra FH-liðinu til sigurs í deildarleik eftir að hann tók við stjórnartaumunum af Ólafi Davíð hjá liðinu fyrr í sumar.

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu töluvert betur í leiknum í kvöld og fengu á fyrstu 30. mínútum leiksins fjölmörg marktækifæri. Vuk Óskar komst tvisvar sinnum í stöðu einn gegn Frederik Schram, markverði Vals. Í fyrra skiptið varði Frederik með höfðinu og í það síðara hitti Vuk ekki markið. Matthías Vilhjálmsson fékk þá nokkur góð skallafæri en Frederik varði þau bæði ásamt því að verja góð skot frá Birni Daníel Sverrissyni og Haraldi Einari Ásgrímssyni.

Eftir að hafa staðið af sér mikla og langa pressu frá gestunum þá tóku Valsmenn við sér. Patrick Pedersen skoraði fyrsta mark leiksins á 32. mínútu eftir sendingu frá Guðmundi Andra Tryggvasyni en var dæmdur rangstæður. Það setti tóninn fyrir Val því eftir nokkrar góðar sóknir á næstu tíu mínútum þá komust Valsmenn yfir með löglegu marki. Tryggvi Hrafn skipti boltanum frábærlega frá vinstri og yfir til hægri á Birki Má sem sendi góða sendingu út í teiginn á Patrick Pedersen. Pedersen reyndi viðstöðulaust skot meðfram jörðu sem virtist vera á leið í hendurnar á markverði FH en eftir viðkomu í hælnum á Guðmundi Andra fór boltinn í netið og Guðmundur Andri búinn að koma Val yfir. Hálfleikstölur 1-0 heimamönnum í vil.

Valsmenn komu sterkari út í síðari hálfleikinn en þeim tókst þó ekki að skora fyrr en á 64. mínútu eftir að FH liðið hafði verið að sækja í sig veðrið. Tryggvi Hrafn sendi boltann upp á Aron Jóhannsson sem tók skemmtilegan þríhyrning við Patrick Pedersen á miðjunni áður en hann sendi svo hárnákvæma stungusendingu í gegn á Guðmund Andra sem kláraði færið snyrtilega framhjá Gunnari Nielsen í marki FH og staðan orðin 2-0.

Það sem eftir lifði leiks litu FH-ingar í raun aldrei út fyrir að ætla að minnka muninn og voru það frekar Valsmenn sem voru líklegir til þess að bæta við. Allt kom þó fyrir ekki og niðurstaðan á Origo Vellinum í kvöld 2-0 sigur Valsmanna sem fögnuðu dátt í leikslok.

Valur er nú í fimmta sæti deildarinnar með 24 stig, þremur stigum á eftir KA sem situr í  þriðja sætinu sem gæti veitt þátttökurétt í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á næstu leiktíð. 

FH er aftur á móti í harðri fallbaráttu með sín 11 stig í tíunda sæti, einu stigi á undan Leikni sem er í efra fallsætinu og hefur spilað einum færri leik en FH. 

Af hverju vann Valur?

Gæði. Frederik Schram var magnaður í upphafi leiks sem og í leiknum öllum. Hann hélt markinu hreinu þegar á þurfti að halda og svo voru það gæðin fram á við í Patrick, Aroni, Tryggva og Guðmundi Andra sem skilaði mörkunum. Það var allt miklu léttara hjá Val í kvöld en áður og flæðið í sóknarleiknum mun meira. Það reyndist frábær breyting í kvöld að fá betur spilandi hafsent inn í Juelsgård og sókndjarfari bakvörð í Sigurði Agli.

Hverjir voru bestir?

Frederik Schram er óumdeildur maður leiksins. Varði allt sem að marki kom og öskraði svo sjálfstrausti og trú í liðsfélaga sína.

Leikurinn í kvöld var sá langbesti sem ég hef Patrick Pedersen spila í nokkur ár. Mikið að fá boltann og koma sér og öðrum í góðar stöður.

Aðrir sem eiga skilið tilnefningu eru Aron Jó, Guðmundur Andri, Tryggvi Hrafn og Haukur Páll sem allir spiluðu mjög vel í kvöld.

Hvað má betur fara?

Skipulagsleysið í leik FH er gífurlegt. Tilviljanakenndur sóknarleikur og svo alveg galopinn varnarleikur. Valsmenn gátu fundið sér hvaða svæði sem þeir vildu í leiknum í kvöld hvort sem það var fyrir framan vörn FH, úti á köntunum eða inni í teignum.

FH fellur um deild ef þeir ná ekki að nýta sér það þegar þeir eru á góðum kafla og skapa sér færi. Svo einfalt er það.

Hvað gerist næst?

FH leikur annan mjög erfiðan leik gegn særðum KA-mönnum sem töpuðu síðasta leik. Sá leikur verður spilaður sunnudaginn 7. ágúst klukkan 17:00 í Kaplakrika. Leikur sem FH þarf nauðsynlega að vinna líkt og allir leikir.

Valsmenn fara sömuleiðis í erfitt verkefni uppi á Skaga mánudaginn 8. ágúst þegar þeir leika gegn ÍA kl 19:15. Skagamenn neðstir í deildinni og munu gefa allt sem þeir eiga í þann leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira