Enski boltinn

Arsenal skoðar enn einn Brassann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lucas Paquetá gæti orðið fimmti Brassinn í röðum Arsenal.
Lucas Paquetá gæti orðið fimmti Brassinn í röðum Arsenal. Masashi Hara/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal segist hafa áhuga á því að fá brasilíska landsliðsmanninn Lucas Paquetá í sínar raðir frá Lyon.

Hins vegar hefur félagið ekki hafið viðræður við Lyon um möguleg vistaskipti miðjumannsins. Hann lék 34 deildarleiki fyrir Lyon á seinasta tímabili þar sem hann skoraði átta mörk og lagði upp önnur sex fyrir liðsfélaga sína. Þá hefur hann leikið 33 leiki fyrir brasilíska landsliðið og skorað í þeim sjö mörk.

Paquetá er samningsbundinn Lyon til ársins 2025 og því gæti reynst erfitt fyrir Arsenal að krækja í miðjumanninn.

Hinn brasilíski Edu, tæknilegur ráðgjafi hjá Arsenal, hefur nú þegar fengið fjóra landa sína til liðsins síðan hann tók við stöðunni í júlí árið 2019. Gabriel Martinelli gekk til liðs við félagið sumarið 2019, Gabriel Magalhães ári síðar og í sumar hefur Arsenal keypt þá Gabriel Jesus frá Manchester City og Marquinhos frá São Paulo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×